Verðugt verkefni með ungu liði Íslands

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er gríðarlega erfiður riðill sem við drógumst í og milliriðillinn verður litlu skárri, ef við förum áfram í hann,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik í samtali við mbl.is í dag. 

Dregið var í riðla fyrir heimsmeistaramótið 2019 í dag en mótið fer fram dagana 9. janú­ar til 27. janú­ar á næsta ári í Dan­mörku og Þýskalandi. Ísland mun leika í B-riðli heims­meist­ara­móts­ins ásamt Spáni, Króa­tíu, Makedón­íu, Barein og Jap­an.

„Spánverjar eru ríkjandi Evrópumeistarar, Króatar eru með frábært lið, líkt og Makedónía. Svo verður mjög áhugavert að mæta Degi Sigurðssyni og Japan. Það verður mjög sérstakt fyrir mig persónulega að mæta svo Barein en ég þjálfaði auðvitað liðið og átti þátt í því að koma þeim á HM. Það setur svo skemmtilegan brag á riðilinn að við erum með þrjá íslenska þjálfara þar.“

Guðmundur átti stóran þátt í því að koma Barein á …
Guðmundur átti stóran þátt í því að koma Barein á HM 2019. AFP

Getum átt von á hverju sem er

Eins og áður sagði átti Guðmundur stóran þátt í því að koma Barein á HM og fannst honum skrítið að dragast með þeim í riðil.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá finnst mér hálf skrítið að hafa dregist í riðil með Barein en ég þekki liðið vissulega mjög vel. Það sama er hægt að segja um japanska liðið og vonandi hjálpar það okkur eitthvað en það verður bara að koma í ljós. Möguleikinn á því að komast upp úr riðlinum er alltaf til staðar en það verður erfitt. Við erum að byggja upp nýtt lið og ég hlakka mikið til að takast á við þetta verkefni með ungu liði Íslands.“

Íslenska liðið þarf að nýta tímann vel áður en mótið hefst en öll liðin í riðlinum spila ólíkan handbolta.

„Öll þessi lið spila mjög ólíkan handbolta. Spánverjar spila mjög stífan varnarleik og verða mjög grimmir á móti okkur. Króatar hafa bæði spilað 5-1 vörn og 6-0. Makedónía er ólíkindatól og það er ómögulegt að segja hvað Japan og Barein gera þannig að þetta verður krefjandi og skemmtilegt verkefni að glíma við þetta. Við þurfum að æfa sóknarleik á móti öllum mögulegum vörnum.“

Það þarf að huga að mörgu í undirbúningi liðsins fyrir …
Það þarf að huga að mörgu í undirbúningi liðsins fyrir HM 2019. mbl.is/Árni Sæberg

Ógnarsterkur milliriðill

Takist íslenska liðinu að komast áfram í milliriðla bíður liðinu ekki öfundverðir andstæðingar þar.

„Milliriðillinn gæti orðið ógnar sterkur líka en markmiðið er að sjálfsögðu að komast í hann. Þar gætum við mætt Rússlandi, Frakklandi og Þýskalandi og styrkleikinn þar er gríðarlegur. Það verður bara að segjast að C og D armurinn er ekki alveg jafn sterkur en þetta leggst engu að síður vel í mig og það verður bara gaman fyrir strákana að fá að spreyta sig gegn bestu liðum heims,“ sagði Guðmundur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert