Ísland í undanúrslit á EM

Dagur Gautason og Haukur Þrastarson eru liðsmenn hins vaska 18 …
Dagur Gautason og Haukur Þrastarson eru liðsmenn hins vaska 18 ára landsliðs Íslands í handbolta sem gerir það gott á EM í Króatíu.

Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, tryggði sér sæti í undanúrslitum fyrir stundu með því að vinna þýska landsliðið, 23:22, á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Króatíu. Íslenska liðið er þar með öruggt um að hafna í efsta sæti milliriðils tvö hvernig sem leikir lokaumferðarinnar á morgun enda.

Lokaleikur Íslands í milliriðli verður við Spánverja á morgun en spænska liðið tapaði fyrir Svíum í dag með eins marks mun, 28:27. Eftir sigurinn á Þjóðverjum hefur Ísland fjögur stig í milliriðli 2, Þjóðverjar 2 stig, Svíar einnig en Spánverjar eru án stiga.

Íslenska liðið var yfir í leiknum við Þjóðverja frá upphafi til enda. Forskot Íslands var þrjú mörk að loknum fyrri hálfleik, 13:10. Þegar fimm mínútur voru eftir hafði íslenska liðið fimm marka forskot, 23:18. Liðið lenti hins vegar í kröppum dansi á lokamínútum leiksins og hafði nærri misst leikinn niður í jafntefli. Í tvígang með skömmu millibili misstu Íslendingar leikmenn af leikvelli í tvær mínútur auk þess sem mönnum brást bogalistin í vítakasti og opnu færi í viðbót við að ruðningur var dæmdur á Íslendinga. Þjóðverjar voru með boltann síðustu 11 sekúndur leiksins og freistuðu þess að jafna metin. Það tókst þeim ekki og leikmenn íslenska liðsins fögnuðu sætum sigri, þeim fjórða í jafnmörgum leikjum á mótinu. 

Haukur Þrastarson var í leikslok valinn besti maður íslenska liðsins í leiknum. Hann var markahæstur með níu mörk. Tumi Steinn Rúnarsson var næstur með fjögur mörk. Dagur Gautason og Eiríkur Guðni Þórarinsson skoruðu þrjú mörk hvor, Arnór Snær Óskarsson tvö, Einar Örn Sindrason og  Stiven Tobar Valencia eitt mark hvor.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði 16 skot í leiknum, þar af tvö vítaköst.

Danir eru efstir í milliriðli eitt með fjögur stig eftir sigur á Króötum í kvöld, 22:20. Danska liðið er þar með komið í undanúrslit. Frakkar unnu Serba, 31:26, og hafa tvö stig eins og Króatar. Serbar reka lestina án stiga.  Frakkar og Króatar bítast um annað sætið og keppnisrétt í undanúrslitum á morgun. 

Undanúrslitaleikirnir fara fram á föstudaginn. Leikið verður um verðlaunasætin á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert