U18 mætir Króötum í undanúrslitum

FH-ingurinn Einar Örn Sindrason var atkvæðamestur í íslenska liðinu í …
FH-ingurinn Einar Örn Sindrason var atkvæðamestur í íslenska liðinu í dag með 5 mörk. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, tapaði í dag fyrir Spánverjum, 33:27, í lokaleik sínum í milliriðli 2 á Evrópumótinu sem fram fer í Króatíu. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 18:13 fyrir spænska liðinu og náðu Spánverjar mest sjö marka forystu í síðari hálfleik. Íslenska liðinu tókst aldrei að brúa það bil og lokatölur því 33:27. 

Einar Örn Sindrason var atkvæðamestur í íslenska liðinu með 5 mörk og Þorleifur Rafn Aðalsteinsson og Viktor Andri Jónsson skoruðu 4 mörk hvor. Þá skoraði Dagur Gautason 3 mörk og þeir Ingvar Goði Sveinsson, Hafsteinn Óli Ramos, Stiven Tobar Valencia og Tjörvi Týr Gíslason skoruðu 2 mörk hver.

Haukur Þrastarson, sem var fyrir leikinn í dag markahæsti maður keppninnar, og markvörðurinn sterki, Viktor Gísli Hallgrímsson, komu lítið við sögu í leiknum í dag. Haukur skoraði aðeins eitt mark. 

Ísland hafnaði í efsta sæti milliriðils tvö með 4 stig og mætir Króatíu í undanúrslitum mótsins á föstudaginn næsta klukkan 18:30 að íslenskum tíma. Í hinu undanúrslitaeinvíginu mætast Danmörk og Svíþjóð. Sigurliðin leika til úrslita á mótinu á sunnudag en tapliðin bítast um bronsverðlaun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert