Arnór skoraði átta í bikarsigri

Arnór Þór Gunnarsson skoraði átta mörk.
Arnór Þór Gunnarsson skoraði átta mörk. mbl.is/Árni Sæberg

Arnór Þór Gunnarsson fer vel af stað á nýju tímabili í þýska handboltanum. Hornamaðurinn skoraði átta mörk í 36:11-útisigri Bergischer á Saarlouis í 1. umferð þýsku bikarkeppninnar í dag.

Bjarki Már Elísson gerði fimm mörk fyrir Füchse Berlín sem vann Oranienburger á útivelli, 37:23. Ragnar Jóhannsson skoraði fjögur mörk fyrir Hüttenberg sem vann Elbflorenz, 29:26, eins og Alexander Petersson fyrir Rhein Neckar-Löwen sem vann Furstenfeldbruck, 43:19. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði ekki fyrir Löwen. 

Tveir íslenskir þjálfarar stýrðu liðum sínum í 1. umferðinni í dag. Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar unnu 39:23-sigur á Essen. Gísli Þorgeir Kristjánsson lék ekki með Kiel. Aðalsteinn Eyjólfsson stýrði svo Erlangen til 38:18-sigurs á Gross Bieberau. 

Oddur Gretarsson var ekki á meðal markaskorara Balingen sem vann Hasslock, 28:18 og Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði ekki fyrir Lübeck-Schwartau í 31:17-tapi fyrir Magdeburg. Aron Rafn Eðvarðsson lék ekki með Hamburg sem tapaði fyrir Minden, 37:24. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert