Ásbjörn ráðinn aðstoðarþjálfari FH

Ásbjörn Friðriksson, FH, og Finnur Ingi Stefánsson, Gróttu.
Ásbjörn Friðriksson, FH, og Finnur Ingi Stefánsson, Gróttu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ásbjörn Friðriksson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks FH í handknattleik karla. Þetta kemur fram á heimasíðu FH. 

Ásbjörn hefur verið lykilmaður í liði FH-inga um árabil og verið fyrirliði liðsins um nokkurt skeið.

Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, segir að mikils sé vænst af samstarfi Halldórs Jóhanns Sigfússonar og Ásbjarnar Friðrikssonar:

„Ási hefur alltaf haft sterka rödd innan leikmannahóps FH og með ráðningu þessari er ljóst að hún verður enn sterkari. Ási er gríðarlega virtur innan hópsins, og félagsins alls, og við væntum mikils af samstarfi hans og Halldórs Jóhanns.“

Ásgeir notaði einnig tækifærið og þakkaði Árna Stefáni Guðjónssyni fyrir samstarfið:

„Um leið og við bjóðum Ása velkominn í þjálfarateymið þá viljum við þakka Árna Stefáni Guðjónssyni kærlega fyrir samstarfið en Árni Stefán hefur unnið mjög gott og óeigingjarnt starf fyrir FH í mörg ár.“

Fyrsta umferð Olísdeildar karla í handbolta hefst 9. september. Fyrsti leikur FH verður gegn grönnum þeirra í Haukum í Schenker-höllinni, heimavelli Hauka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert