Alfreð vill kveðja með titli

Alfreð Gíslason er að hefja sitt síðasta keppnistímabil sem þjálfari …
Alfreð Gíslason er að hefja sitt síðasta keppnistímabil sem þjálfari Kiel. JONAS GUETTLER

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska stórliðsins THW Kiel, er að hefja sitt 22. keppnistímabil sem þjálfari í þýsku 1. deildinni, þar af ellefta tímabilið hjá Kiel og jafnframt síðasta. „Það eru þrjú ár síðan ég sagði við forráðamenn Kiel að ég ætlaði mér ekki að standa a hliðarlínunni í bundeslígunni sextugur. Við það ætla ég að standa,“ sagði Alfreð þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gærmorgun þar sem hann sat við leikgreiningar eins og hann gerir árla flesta morgna stærstan hluta ársins.

Alfreð, sem er að minnsta kosti sigursælasti íslenski handknattleiksþjálfarinn á erlendri grundu, verður sextugur í september á næsta ári. „Ég held að þeir séu ekki margir ef þá nokkrir þjálfaranir sem hafa náð 22 tímabilum í efstu deild,“ svaraði Alfreð spurður hvort hann vissi til þess að aðrir þjálfarar hefðu verið jafn lífseigir í deildinni. „Ég lofaði konunni minni þegar við fórum út 1997 að vera í tvö ár og síðan færum við heim á ný. Annað hefur komið á daginn,“ sagði Alfreð sem hefur lítið velt fyrir sér hvað hann tekur sér fyrir hendur þegar hann hættir þjálfun Kiel-liðsins um mitt næsta ár.

„Ætli það sé ekki bara tími kominn til að taka sér frí og fara í veiði heima að sumri til. Maður hefur ekkert getað gert það vegna vinnu enda er undirbúningur hjá mér hafinn í byrjun júlí fyrir næsta keppnistímabil hvert sumar,“ sagði Alfreð léttur í bragði.

Mín ákvörðun að fá Jicha

Fyrir dyrum stendur að Tékkinn Filip Jicha taki við af Alfreð á næsta ári. Jicha er þegar kominn til starfa sem aðstoðarþjálfari. „Það var mín ákvörðun á sínum tíma að fá Jicha í starfið. Hann getur haldið áfram að vinna á þeim grunni sem við erum að vinna á. Hann þekkir vel til eftir að hafa leikið undir minni stjórn árum saman. Þegar mál voru frágengin gagnvart Jicha taldi ég að best færi á því að hann kæmi til félagsins strax og ynni við hlið mér síðasta árið áður en hann tæki við af mér,“ sagði Alfreð.

Lesa má viðtalið við Alfreð Gíslason í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert