Alltaf léttir að fá fyrsta sigurinn

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson.
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson. mbl.is/Hari

„Það er alltaf gott að fá fyrsta sigurinn. Stundum eru lið að bíða eftir honum og þá kemur pressa, það er mjög mikill léttir að klára þetta,“ sagði Framarinn Þorsteinn Gauti Hjálmarsson eftir að liðið fagnaði sínum fyrsta sigri á tímabilinu í kvöld. Fram vann nýliða KA 26:21-en leikurinn var liður í þriðju umferð Olísdeildar karla í handknattleik.

Framarar gerðu jafntefli gegn Val í fyrstu umferð og töpuðu svo gegn FH en Þorsteinn segir varnarleikinn hafa gert gæfumuninn í kvöld.

„Leikurinn á móti Val var nokkuð góður og hefði getað endað okkar megin en svo á móti FH erum við slakir en það eru bara tveir leikir búnir.“

„Við missum auðvitað Arnar Birkir og það breytir eitthvað spilinu en annars eru við nokkurn veginn sama liðið, bara búnir að bæta nokkrum við. Vörnin var öflug í kvöld og það er eitthvað nýtt að við höldum liðum svona langt niðri.“

Arnar Birkir Hálfdánsson samdi við danska úr­vals­deild­arliðið Sönd­erjyskE í vor en hann var einn af lykilmönnum Fram undanfarin tvö tímabil. Þorsteinn segir liðið þó fullfært um að vinna leiki án hans. Hann skoraði sjálfur átta mörk í kvöld og liðsfélagi hans, Þorgrímur Smári Ólafsson, skoraði níu.

„Við unnum alveg leiki undanfarin tvö tímabil þegar Arnar Birkir átti slakan leik, það kom alveg fyrir. Mörkin koma bara frá hinum og þessum stöðum og í dag var þetta út á góða vörn,“ sagði hann og bætti við að stefna liðsins væri alltaf á úrslitakeppnina. “Við stefnum alltaf á úrslitakeppnina, að sjálfsögðu stefnum við þangað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert