Eins og við séum í handbremsu

Ásgeir Örn Hallgrímsson.
Ásgeir Örn Hallgrímsson. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Ég er fyrst og fremst ánægður með að vinna leikinn og sérstaklega eftir leikinn á Akureyri," sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, leikmaður Hauka, eftir 31:26-sigur á Akureyri í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. 

„Það var margt við þennan leik sem mér fannst mjög fínt. Við vorum fínir í vörninni og þá sérstaklega framan af í fyrri hálfleik þar sem við hefðum getað keyrt meira yfir þá. Við vorum það flottir í vörn að forskotið átti að vera meira í hálfleik."

Haukar fengu þungan skell á móti KA í síðustu umferð og var Ásgeir ánægður að ná í fyrsta sigurinn á tímabilinu. 

„Við vorum að klikka of mikið í sókninni og gefa frá okkur boltann auðveldlega. Þetta var lífsnauðsynlegt fyrir okkur og við nálguðumst leikinn nákvæmlega þannig. Það skiptir engu máli hversu fallegt þetta var, við ætluðum bara að ná í þessi tvö stig."

„Mér finnst við vera að bæta okkur. Við erum að taka pínulítil skref fram á við. Við eigum hins vegar margt inni, það er eins og við séum að spila í handbremsu. Við þurfum að eiga kafla í leikjum þar sem við stjórnum ferðinni betur," sagði Ásgeir Örn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert