Líður alltaf vel þegar ég verð að skora

Jóhann Birgir Ingvarsson spilaði vel í kvöld.
Jóhann Birgir Ingvarsson spilaði vel í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var fulltæpt. Við vorum ekki alveg að fylgja leikskipulagi og við vorum ekki alveg mættir til leiks í byrjun fannst mér en við kláruðum þetta og við erum rosalega ánægðir með það,“ sagði Jóhann Birgir Ingvarsson, leikmaður FH, í samtali við mbl.is eftir 28:27-sigur á Gróttu í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. 

Jóhann lét vel til sín taka undir lokin og skoraði mikilvæg mörk. Hann setti boltann oftar en ekki á milli fóta Hreiðars Levý Guðmundssonar í marki Gróttu. 

„Mér líður alltaf vel þegar ég verð að skora. Maður tekur öruggu skotin, maður fær snertingu og getur fengið fríkastið. Ég skaut þar sem þeir leyfðu mér. Þeir tóku vel á mér og hann er stór markmaður, svo klofið er gott.“

Jóhann er ánægður með byrjun FH-inga á tímabilinu. 

„Ég er sáttur með hana. Þetta er nýtt lið og menn eru að spila sig saman. Við erum að komast betur inn í leikskipulagið og ég er mjög ánægður með byrjunina. Fimm stig eftir þrjá leiki er gott.“

FH mætir Benfica í næstu umferð EHF-bikarsins og Jóhann er spenntur fyrir því verkefni, en leikirnir fara fram í næsta mánuði. 

„Við erum á leiðinni til Benfica og það er spennandi. Þetta er rosalega góð aðstaða, risahöll og við fáum flott hótel þarna, ég er mjög ánægður,“ sagði Jóhann Birgir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert