Ein lélegasta frammistaða sem ég hef séð

Rúnar Sigtryggsson var afar svekktur í leikslok.
Rúnar Sigtryggsson var afar svekktur í leikslok. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta er ein lélegasta frammistaða sem ég hef séð mitt lið spila, sérstaklega í fyrri hálfleik. Öll vinna síðustu viku er búin eftir þrjár mínútur. Undirbúningur fer fyrir lítið. Það er eiginlega sama hver var inni á, ekki skánaði það,“ sagði afar svekktur Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir að liðið lenti illa í því gegn Valsmönnum í Olísdeild karla í handbolta. Lokatölur urðu 37:21, Val í vil. 

Rúnar er sérstaklega ósáttur við spilamennsku sinna manna á heimavelli. 

„Við erum búnir að spila þrjá leiki og fyrstu heimaleikirnir, í 1. og 3. umferð, eru á svipuðum nótum. Frammistaðan á heimavelli er ekki ásættanleg. Menn sýna betri anda þegar þeir spila á útivöllum. Hvort sem það eru æfingaleikir eða deildarleikir.“

Fram undan er tveggja vikna hlé á deildinni og segir Rúnar það koma á góðum tíma fyrir sitt lið. 

„Bubbi [Sveinbjörn Pétursson] er loksins búinn með leikbannið sitt. Egill fer vonandi að koma inn, Ari er á batavegi og vonandi duga þessar tvær vikur. Þessi pása kemur á hárréttum tíma fyrir okkur.“

Leó Snær Pétursson þurfti að fara af velli snemma leiks vegna meiðsla. 

„Það gæti verið að eitthvað hafi slitnað eða brotnað. Það er mjög slæmt, en hann var með í byrjun fyrri hálfleiks svo það útskýrir ekki þessa frammistöðu. Það gæti samt kostað okkur í framhaldinu,“ sagði Rúnar Sigtryggsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert