FH-ingar sluppu fyrir horn

Ásbjörn Friðriksson fyrirliði FH sækir að vörn Gróttu í Kaplakrika …
Ásbjörn Friðriksson fyrirliði FH sækir að vörn Gróttu í Kaplakrika í gærkvöld. mbl.is//Hari

FH þurfti svo sannarlega að hafa fyrir 28:27-sigri sínum á Gróttu í 3. umferð Olísdeildar karla í handbolta í gærkvöldi.

Leikurinn var spennandi frá upphafi til enda og munaði aldrei meira en tveimur mörkum á liðunum. FH var hins vegar með fleiri vopn í sínu búri þegar mest á reyndi.

Hreiðar Levý Guðmundsson átti stórleik í markinu hjá Gróttu og varði 23 skot. Hann var stærsta ástæða þess að Grótta var yfir ágætan hluta leiks, en um leið og Birkir Fannar Bragason datt í gang í marki FH, voru heimamenn líklegri til að taka stigin tvö. Jóhann Birgir Ingvarsson kom afar sterkur inn í lið FH á lokakaflanum og skoraði fjögur af sex síðustu mörkum liðsins, ásamt því að ná í mikilvægt vítakast í lokin. Á sama tíma hægðist á nafna hans í Gróttu, Jóhanni Reyni Gunnlaugssyni, sem hafði haldið uppi sóknarleik Gróttumanna í fyrri hálfleik. Jóhann Reynir virtist þreyttur undir lokin á meðan meira var eftir á tankinum hjá FH-ingum.

Það verður áhugavert að sjá framhaldið hjá FH. Liðið er búið að missa mikilvæga leikmenn, sem áttu stóran hlut í að FH-ingar léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn tvö ár í röð. Haldi Jóhann Birgir áfram að leika eins vel og í gær, munu þeir ekki sakna þeirra sem horfið hafa á braut eins mikið. Ásbjörn Friðriksson er áfram gríðarlega mikilvægur FH-ingum og svo spilar Ágúst Birgisson oftast vel á línunni. FH þarf hins vegar að fá mun meira út úr Einari Rafni Eiðssyni og Bjarna Ófeigi Valdimarssyni, sem náðu sér ekki vel á strik.

Sjá allt um leikina í 3. umferð Olís-deildarinnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert