„Við vorum svolítið agalausir“

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss. mbl.is/Hari

„Það er flott hjá okkur að koma til baka og hætta ekki. Við hefðum alveg getað fengið tvö stig en það hefði kannski ekki verið sanngjarnt,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, eftir 29:29 jafnteflið gegn Aftureldingu í Olís-deild karla í handbolta í kvöld.

„Þetta var svipað og á móti ÍR, þá vorum við fínir varnarlega. Mér fannst 3-2-1 vörnin virka fínt og við vorum alveg með þá. En sóknarlega vorum við að klikka mikið á markmanninn og líka svolítið að fara út úr skipulaginu okkar. Taka einhverjar sendingar sem við vildum ekkert og við vorum svolítið agalausir, þannig séð. Það kemur líka á móti að þeir eru með góðan markmann þó að skotin okkar hafi verið misgóð,“ sagði Patrekur eftir kaflaskiptan leik.

„Já, þetta var sveiflukennt og það er eitthvað sem ég átti von á fyrir mót. Það hefur verið mikið álag á Hauki Þrastar vegna landsliðsverkefna og hann hefur ekki fengið mikið frí og Elvar Örn náði ekki að æfa neitt í sumar. Ég get ekki annað sagt, ef ég lít á þessa þrjá fyrstu leiki í heild, að ég er ánægður þessi fimm stig, þó að ég vildi vera með sex,“ sagði Patrekur enn fremur og bætti við að hans lið ætti mikið inni.

„Ég held að við eigum eftir að bæta okkur. Útilínan var ekki góð hjá okkur í kvöld, hún var ekkert spes. Við vöxum þegar líður á mótið. Við erum að spila á móti góðu liði í kvöld og við verðum að bera virðingu fyrir þessu stigi. Afturelding er með flott lið og við getum verið ánægðir með stigið þó að við hefðum viljað bæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert