Enginn heimsendir

Perla Ruth Albertsdóttir var öflug í liði Selfyssinga í kvöld …
Perla Ruth Albertsdóttir var öflug í liði Selfyssinga í kvöld og skoraði sex mörk. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er alltaf svekkjandi að tapa en ég er samt sem áður ánægð með leikinn, heilt yfir. Þetta var skref upp á við frá síðustu leikjum okkar,“ sagði Perla Ruth Albertsdóttir, leikmaður Selfoss, í samtali við mbl.is eftir 24:19-tap liðsins gegn Val í Olísdeild kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

„Við gáfum þeim alvöruleik og héldum vel í við þær en þær sigldu þessu heim þarna undir lokin. Við vorum að láta ýta okkur í erfið skot undir lokin og við vorum einfaldlega ekki nægilega skynsamar í sóknarleiknum á þeim tímapunkti. Að sama skapi fengu þær mjög ódýr mörk úr hraðaupphlaupum og það kann ekki góðri lukku að stýra gegn jafnsterku liði og Valur er.“

Perla átti frábæran leik í kvöld og skoraði 6 mörk en Selfoss-liðinu hefur ekki gengið vel í upphafi leiktíðar og er liðið í neðsta sæti deildarinnar með 1 stig eftir fyrstu fimm umferðirnar.

„Við ætluðum okkur stærri hluti en þetta er enginn heimsendir. Það eru fimm leikir búnir og við erum með eitt stig en það eru þrjár umferðir í deildinni og nóg eftir af þessu. Leikurinn í kvöld var stórt skref fram á við frá síðasta leik og við förum í hvern einasta leik til þess að halda áfram að bæta okkur,“ sagði Perla Ruth í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert