Góður seinni hálfleikur skilaði sigri

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir sækir að marki Selfoss í kvöld.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir sækir að marki Selfoss í kvöld. mbl.is/Hari

Valskonur unnu þægilegan fimm marka sigur gegn Selfossi í 5. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld. Valsliðið sigldi sigrinum heim í seinni hálfleik en leiknum lauk með 24:19-sigri Vals.

Liðunum gekk erfiðlega að skora á fyrstu mínútunum og var Íris Björk Símonardóttir öflug í marki Valskvenna. Eftir fimmtán mínútna leik var staðan 3:3 og Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Valskvenna, tók leikhlé. Eftir leikhléið náðu Valskonur mest þriggja marka forskoti en Selfyssingar unnu sig aftur inn í leikinn og staðan því 9:7 í hálfleik.

Valskonur byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og náðu snemma fjögurra marka forskoti. Selfosskonur gerði hins vegar áhlaup og jöfnuðu metin í 12:12 þegar 40 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og þá tók Ágúst Jóhannsson leikhlé. Það skilaði sér því Valskonur náðu fimm marka forskoti á fjögurra mínútna kafla og það bil tókst Selfyssingum ekki að brúa og sigur Valskvenna því sanngjarn þegar uppi var staðið.

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var markahæst í liði Valskvenna með 6 mörk og Perla Ruth Albertsdóttir var atkvæðamest í liði Selfyssinga með 6 mörk. Valskonur eru í öðru sæti deildarinnar með 7 stig en Selfoss er sem fyrr á botninum með 1 stig eftir fyrstu fimm umferðirnar.

Valur 24:19 Selfoss opna loka
60. mín. Katla Björg Ómarsdóttir (Selfoss) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert