„Ég hef ekki áhyggjur af þreytu“

Patrekur Jóhannesson ræðir við sína menn.
Patrekur Jóhannesson ræðir við sína menn. mbl.is/Hari

Það var létt yfir Patreki Jóhannessyni, þjálfara Selfoss, eftir sigurinn gegn Val í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Selfoss fór í toppsæti deildarinnar með sigrinum.

„Þetta var frábært í kvöld. Varnarlega vorum við sterkir í fyrri hálfleik, Pawel var stórkostlegur í markinu, ég veit ekki hvað hann varði en hann reddaði okkur og varði jafnt og þétt allan leikinn. Daníel var líka frábær hjá þeim, þetta var dálítið leikur markmannanna,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við mbl.is eftir leik.

Selfyssingar voru frábærir á lokakaflanum þar sem Elvar Örn Jónsson og Hergeir Grímsson drógu vagninn ásamt Pawel Kiepulski markverði. Lokatölur í Hleðsluhöllinni urðu 28:24.

„Þegar við færðum Hergeir á miðjuna þá fór að ganga betur og ég var ánægður með það. Þá vorum við agaðri og menn fóru inn í eyðurnar og nýttu sóknirnar. Hergeir gerði þetta vel, hann spilaði undirbúningstímabilið á miðjunni þegar Elvar og Haukur voru í burtu og þekkir þessa stöðu úr yngri flokkunum. Þó að ég viti þetta nákvæmlega núna þá held ég að þetta hafi verið lykillinn að sigrinum.“

Selfyssingar hafa þurft að spila mjög þétt síðustu daga vegna þátttöku sinnar í EHF-bikarnum en þetta var fjórði leikur liðsins á tólf dögum. Selfoss mætir svo FH í Kaplakrika eftir þrjá daga. Patrekur hefur ekki áhyggjur af álaginu og vildi koma að þökkum til stuðningsmanna liðsins.

„Stemmningin í húsinu frá fyrstu vörn eða sókn. Þetta var úrslitakeppnisstuðningur og það er ómetanlegt fyrir okkur. Þetta var góð skemmtun og tvö stig. Frábært. En nú er það bara endurnæring á morgun og svo er það bara næsta stóra verkefni. Ég hef ekki áhyggjur af þreytu, ég er með Jónda sjúkraþjálfara með mér í þessu, mikinn fagmann, og hann sér um æfinguna á morgun og ég hef engar áhyggjur af því að menn nái sér ekki fyrir leikinn í Kaplakrika,“ sagði Patrekur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert