Maður á besta aldri þarf sínar mínútur

Kári Kristján Kristjánsson átti góðan leik í kvöld.
Kári Kristján Kristjánsson átti góðan leik í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við erum drullufínir með þetta eina stig úr því sem komið var. Við vorum að elta allan leikinn og vorum stálheppnir að ná í jafntefli,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson, línumaður ÍBV, í samtali við mbl.is eftir 28:28-jafntefli á móti Aftureldingu í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. 

ÍBV lenti mest sex mörkum undir í fyrri hálfleik, en tókst með ólíkindum að jafna með síðasta skoti leiksins um leið og klukkan sýndi 0. Kári var ekki sérstaklega ánægður með frammistöðuna hjá ÍBV. 

„Varnarleikurinn okkar er ekki upp á það besta og þá fylgir markvarslan ekki í kjölfarið. Við erum svolítið brottgengir, það er svolítið annaðhvort eða hjá okkur. Í sókninni í fyrri hálfleik erum við að fara með helvítis magn af færum og það er eitthvað sem við verðum að drullast til að laga.“

Kári byrjaði á bekknum í kvöld, en ÍBV var að leika sinn fjórða leik á síðustu tíu dögum vegna þátttöku Eyjamanna í EHF-bikarnum. Hann kom með mikinn kraft í lið Eyjamanna, sem spiluðu mun betur eftir innkomu hans. 

„Bandalagið er í miklu álagi núna og maður á besta aldri þarf sínar mínútur og svo er Elliði frábær leikmaður. Ég er kominn á þann aldur að þegar ég kem inn, þarf ég að vera í leiðtogahlutverki. Það er fínt að geta komið með innspýtingu á þeim tímapunkti sem við þurftum hana.“

Púlsinn í 200 allan tímann

Elliði Snær Viðarsson fékk tveggja mínútna brottvísun fyrir að ögra Gunnari Malmquist í liði Aftureldingar eftir brot á Kristjáni Erni Kristjánssyni í seinni hálfleik. Kári þurfti að stíga inn í og stöðva frekari hasar, en hann var ekki ánægður með brottvísunina. 

„Það verða að vera smá tilfinningar í þessu líka. Hann kemur ekki við neinn mann þarna. Það er ástríða í þessu og púlsinn er í 200 allan tímann. Þetta er tilfinningasport og það var ódýrt að henda út af fyrir þetta.“

Hann hefur ekki áhyggjur af gengi ÍBV, en liðið hefur aðeins unnið einn leik í fyrstu fimm umferðunum. 

„Þetta eru tvö jafntefli, einn sigur og eitt tap. Þetta er nýr mannskapur, nýtt lið og það tekur tíma að slípa þetta saman. Við erum mjög sallarólegir yfir þessu,“ sagði Kári Kristján. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert