Hlutirnir féllu ekki með okkur

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, á hliðarlínunni í kvöld.
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Hari

„Þetta var mjög jafn leikur og það er svekkjandi að taka þessu. Við gerum tvö mjög dýr mistök á lokamínútunum og þau kosta okkur leikinn,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, í samtali við mbl.is eftir 30:27-tap liðsins gegn Selfossi í 6. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.

„Við áttum góða möguleika á því að vinna þennan leik en Selfoss er með frábært lið og það dettur allt með þeim á lokamínútunum og því fór sem fór. Ég er ánægður með margt í okkar leik og þetta var mun betri leikur hjá okkur í kvöld en oft áður í vetur. Það sem skildi á milli voru tæknimistök sem við gerum en ekki þeir.“

Halldór Jóhann var sáttur með varnarleik sinna manna í kvöld en markvarslan hefði mátt vera betri á lokamínútunum.

„Það eru alltaf miklar sveiflur í þessum leikjum sem við höfum spilað á móti Selfyssingum og það breyttist ekki í kvöld. Eins og ég sagði áðan þá hefðu hlutirnir þurft að falla með okkur undir restina og það gerðist ekki. Við spiluðum mjög góðan varnarleik í kvöld en hefðum þurft betri markvörslu í seinni hálfleik. Á meðan varði Pawel vel hjá þeim og svona er þetta stundum.“

Hafnfirðingar voru tveimur mönnum fleiri þegar fimm mínútur voru til leiksloka en þeir náðu ekki að nýta sér þann leikkafla vel.

„Við fáum dauðafæri þegar að við erum tveimur mönnum fleiri en náum ekki að nýta þau og þegar öllu er á botninn hvolft þá var það þessi spilakafli sem fór með leikinn,“ sagði Halldór Jóhann í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert