Stefán kom Veszprém í söguleg vandræði

Stefán Rafn Sigurmansson varð ungverskur meistari 2018 eftir einokun Veszprém …
Stefán Rafn Sigurmansson varð ungverskur meistari 2018 eftir einokun Veszprém í áratug. Ljósmynd/Pick-Szeged

Ungverska handknattleiksstórveldið Veszprém er í sögulegri lægð, en liðið tapaði um helgina fyrir Stefáni Rafni Sigurmannssyni og ríkjandi meisturum Pick Szeged, 32:27, í úrvalsdeildinni þar í landi.

Stefán Rafn skoraði tvö mörk fyrir Szeged í leiknum en þetta var annað tap Veszprém í röð í ungversku úrvalsdeildinni, sem er sannarlega saga til næsta bæjar. Þegar tölfræði er skoðuð aftur í tímann þá er þetta í fyrsta sinn í að minnsta kosti áratug sem liðið tapar tveimur leikjum í röð. Liðið vann ungverska meistaratitilinn tíu ár í röð þar til Stefán Rafn og félagar sáu við þeim síðastliðið vor.

Veszprém lét sænska þjálfarann Ljubomir Vranjes fara snemma í mánuðinum, en á þeim tímapunkti hafði liðið ekki byrjað verr í 23 ár í deild og Meistaradeild. Spánverjinn David Davis var í kjölfarið ráðinn þjálfari liðsins, en hann hefur greinilega ekki náð að snúa lægðinni við.

Veszprém er sigursælasta félag í sögu Ungverjalands. Liðið hefur fagnað meistaratitlinum 25 sinnum, langoftast allra liða, og orðið bikarmeistari 27 sinnum sem einnig er met. Aron Pálmarsson lék sem kunnugt er með liðinu árin 2015-2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert