Bilið á milli landsliða minnkar

Ómar Ingi Magnússon í leik gegn Litháen í júní.
Ómar Ingi Magnússon í leik gegn Litháen í júní. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ómar Ingi Magnússon, segist ekki þekkja mikil til gríska landsliðsins sem mætir Íslandi í Laugardalshöll annað kvöld, í fyrsta leik liðanna í undankeppni EM 2020. 

Ómar bendir þó á að bilið á milli landsliða sé að minnka. „Ég þekki ekki mikið til liðsins og veit ekki hvernig leikstílinn er en við eigum eftir að skoða þá. Það verður að koma í ljós en bilið á milli liða er að minnka. Veikari liðin eru farin að stríða stærri liðunum. Það er að gerast í öllum íþróttum,“ sagði Ómar þegar mbl.is spjallaði við hann á landsliðsæfingu. 

Ísland leikur í lokakeppni HM í janúar og verður riðill Íslands í München. Liðið vann sér inn keppnisréttinn í júní en nú er farið að styttast nokkuð í HM. Ómar segir ekki tímabært fyrir landsliðsmennina að velta því of mikið fyrir sér.

„Já það fylgir því fiðringur að vera á leið á HM en nú þurfum við að einbeita okkur að þessu verkefni og þá þýðir lítið að hugsa um HM. En með því að æfa saman og spila leiki þá erum við ómeðvitað að undirbúa okkur fyrir HM. En það mót kemur bara í janúar og nú þurfum við góð úrslit í tveimur leikjum. Einbeitingin þarf að vera 100%,“ sagði Ómar en landsliðið heldur í kjölfarið til Tyrklands og leikur þar á laugardaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert