Eru með handboltaheila

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Aron Pálmarsson leiðir íslenska landsliðið í handknattleik út á völlinn annað kvöld þegar Íslendingar taka á móti Grikkjum í fyrsta leiknum í undankeppni Evrópumótsins.

Aron er fyrirliði landsliðsins í fjarveru Guðjóns Vals Sigurðssonar en Aron vann á dögunum heimsmeistaratitil félagsliða með Barcelona en hann er á sínu öðru tímabili með Katalóníuliðinu. Ísland er í riðli með Grikklandi, Tyrklandi og Makedóníu og mætir Tyrkjum í Ankara á sunnudaginn en þráðurinn verður svo tekinn upp í riðlakeppninni í apríl á næsta ári. Tvö efstu liðin tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM sem haldin verður í Austurríki, Noregi og Svíþjóð í janúar 2020.

„Fyrir fram teljum við okkur vera með sterkara lið heldur en Grikkir og Tyrkir. Að sama skapi eru þetta lið sem við vitum lítið um og við höfum séð það í gegnum árin að svokallaðar minni þjóðir hafa verið að bæta sig mikið. Við eigum klárlega að taka tvö stig á móti Grikkjunum í Laugardalshöllinni. Allt annað yrðu mikil vonbrigði. Það verður samt ekkert vanmat í gangi hjá okkur. Við ætlum að keyra á þá og spila góðan leik. Leikurinn úti á móti Tyrkjunum verður örugglega mjög erfiður við krefjandi aðstæður. Tyrkirnir eru óþekktur andstæðingur og maður hefur heyrt að það séu mikil læti á áhorfendapöllunum í Tyrklandi. En við ætlum okkur klárlega að vera með fjögur stig eftir þessa tvo fyrstu leiki,“ sagði Aron Pálmarsson í samtali við mbl.is í dag.

Oft stutt í kúkinn

Það eru að vera ákveðin kynslóðarskipti í íslenska landsliðinu og ungir leikmenn á borð við Gísla Þorgeir Kristjánsson, Hauk Þrastarson og Elvar Örn Jónsson eru komnir í liðið og hafa fengið aukna ábyrgð.

„Þessir strákar eru hrikalega góðir og ég ætla að vona að þeir nái langt og spili í framtíðinni í toppklúbbum. Það mun gera landsliðið bara sterkara. Það sem mér finnst skemmtilegast við þá er að í fyrsta lagi þá eru þeir mjög vel þjálfaðir og skilningurinn á leiknum hjá þeim er til fyrirmyndar. Þeir eru með handboltaheila, eru vel uppaldir og eru óhræddir. Það er undir þeim komið hversu langt þeir vilja ná. Það er mjög spennandi tímar í vændum hjá landsliðinu og að hafa fengið Guðmund sem þjálfara aftur var alveg frábært. Ég man það bara sjálfur þegar ég kom fyrst inn í landsliðið þá var Gummi þjálfari liðsins. Hann heldur „standard“, er með góðar æfingar og veit hvað til þarf. Ég man hins vegar sjálfur þegar ég var 17 ára að spila með FH að þá var hellingur eftir sem ég þurfti að gera en þetta lítur vel út hjá þeim í dag. En ef ég vitna í þann gamla meistara, Geir Hallsteinsson, þá er oft stutt í kúkinn.“

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Ljósmynd/Barcelona

Eins og áður segir bætti Aron enn einum titlinum í safn sitt um síðustu helgi þegar hann vann heimsmeistaratitil félagsliða með Barcelona en Aron hefur á sínum atvinnumannaferli með Kiel, Veszprém og Barcelona sankað að sér titlum.

„Það gengur ljómandi vel hjá okkur í Barcelona og liðið er miklu sterkara núna heldur en í fyrra. Við keyrum á andstæðinga okkar miskunnarlaust, sem er breyting frá því í fyrra, og líkamlega lítur liðið miklu betur út. Varnarleikurinn er orðinn miklu betri og þessir nýju leikmenn sem komu til okkar í sumar hafa styrkt liðið. Með hverri vikunni hefur mér alltaf liðið betur og betur varðandi liðið. Ég sé ekkert annað lið sem betra en okkar og við höfum alla burði til að vinna Meistaradeildina á þessu tímabili. Við förum í alla leiki hvort sem þeir eru heima eða úti til að vinna og augljóst markmið okkar er að fara alla leið í Meistaradeildinni,“ segir Aron, sem er töluvert öðru hlutverki hjá Barcelona en íslenska landsliðinu. Með landsliðinu leikur hann að mestu í stöðu skyttu en hjá Barcelona er hann leikstjórnandi.

Stundum fer þetta í taugarnar á mér

„Ég er meira í því að reyna að búa til mörk hjá Barcelona. Ég spila að mestu á miðjunni og ég hef frábæra línumenn sem ég get notað. Svo er líka eitt að það er auðveldara að skora 7-9 mörk á 60 mínútum heldur en 30 mínútum. Spænska kerfið gengur svolítið út á það að maður spilar í 15 mínútur og hvílir í 15 mínútur. Ef það er basl í leikjum þá reynir þjálfarinn að tefla fram sínu besta liði en þeir eru mjög fastir í því að skipta mönnum út af eftir 15 mínútur.

Ég skal alveg viðurkenna að stundum fer þetta í taugarnar á mér og þjálfarinn veit það. En þetta er bara þeirra taktík. Maður vældi yfir álagi í Þýskalandi svo maður er aldrei sáttur,“ sagði Aron og hló. „En þetta hefur virkað vel hjá okkur svo það er erfitt að gagnrýna þetta kerfi. Stundum þegar maður er heitur þá langar mann að spila meira en veit að maður er að fara út af eftir tvær mínútur. En hópurinn er það breiður og góður að við getum spilað svona.“

Leikur Íslands og Grikklands fer fram í Laugardalshöllinni annað kvöld og hefst klukkan 19.45

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert