Selfyssingum halda engin bönd enn sem komið er

Haukur Þrastarson sækir að vörn FH í 6. umferðinni.
Haukur Þrastarson sækir að vörn FH í 6. umferðinni. mbl.is/Hari

Ekkert lát er á sigurgöngu hins stórskemmtilega liðs Selfoss undir stjórn Patreks Jóhannessonar. Liðinu halda engin bönd, hvort heldur á Íslandsmótinu eða í Evrópukeppninni.

„Það er alveg saman hvað ég bið þessa stráka að gera, þeir gera það og gera það vel,“ sagði Patrekur í samtali við mbl.is eftir sigur Selfoss á FH-ingum í Kaplakrika á laugardagskvöldið, 30:27. Fimm sigurleikir eru að baki hjá Selfossi í Olís-deildinni og eitt jafntefli. Varnarleikurinn fer batnandi og markvarslan einnig en hún olli Patreki á tíðum hausverk á síðasta keppnistímabili.

„Það eru bara sex umferðir búnar af deildinni og það er nóg eftir,“ sagði Patrekur ennfremur í viðtali við mbl.is. Sannarlega orð að sönnu en meðan vel gengur er Selfoss með liðið sem allir miða sig við með unga og fríska leikmenn sem eru vel þjálfaðir, ekki bara um þessar mundir, heldur hafa þeir hlotið afar góða grunnþjálfun í íþróttinni auk þess sem nokkrir þeirra hafa þar á ofan mikla hæfileika. Má þar nefna Hauk Þrastarson og Elvar Örn Jónsson. „Það er alltaf gaman að vera á toppnum en það hefur ekki mikið að segja á þessum tímapunkti,“ sagði Patrekur þjálfari ennfremur og víst er að hann hittir naglann á höfuðið. Veður geta skipast fljótt í lofti.

Nánar er fjallað um 6. umferð Olís-deildar karla í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert