Frammistaðan ekki komið mér á óvart

Orri Freyr Þorkelsson skoraði sex mörk í kvöld.
Orri Freyr Þorkelsson skoraði sex mörk í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Þetta var liðsheildin og hvernig við spiluðum þetta saman. Okkar markmið og skipulagið gekk upp. Við fórum vel eftir því,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson, leikmaður Hauka, í samtali við mbl.is eftir 30:26-sigur á Selfossi í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. 

Haukar náðu mest átta marka forystu í seinni hálfleik, áður en Selfoss minnkaði muninn í tvö mörk. Hann hrósaði vörn liðsins fyrir góða kaflann í fyrri hálfleik. 

„Þegar við náðum að stilla í vörn small þetta allt. Vörnin var að skila einföldum mörkum. Ég var svo ósáttur við þennan lélega kafla því við eigum ekki að sýna þannig spilamennsku. Ég var með góða tilfinningu fyrir þessu en ég hefði viljað stærra forskot því Selfyssingarnir eru mjög öflugir og geta gert hvað sem er.“

Orri Freyr hefur spilað afar vel á leiktíðinni og er hann í stóru hlutverki hjá liðinu. 

„Frammistaðan er ekki að koma mér á óvart. Ég hef fengið að spila meira en ég bjóst við því Einar meiddist. Ég er mjög ánægður hvernig þetta er búið að ganga,“ sagði Orri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert