Íslenska landsliðið myndi sakna Elvars

Patrekur Jóhannesson ræðir við sína menn.
Patrekur Jóhannesson ræðir við sína menn. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Haukar skoruðu ellefu mörk úr hraðaupphlaupum á móti KA og keyrðu yfir KA þannig. Þeir keyrðu svoleiðis yfir okkur líka í fyrri hálfleik,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, eftir 30:26-tap fyrir Haukum á útivelli í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. 

Hann var ósáttur við færanýtingu sinna manna, en ánægður með að enginn gafst upp er Haukar komust átta mörkum yfir í fyrri hálfleik. 

„Við opnuðum vörnina, það var ekki vandamálið, en við nýttum ekki færin. Við vorum að skjóta illa á Grétar, sem er góður markmaður. Ég er hins vegar ánægður hvernig við brugðumst við að lenda 14:6 undir. Við vorum að reyna og það var enginn sem fór í aumingjann og gafst upp.“

Elvar Örn Jónsson var ekki með Selfossi í leiknum vegna meiðsla og viðurkennir Patrekur að liðið hafi saknað hans. 

„Ég var ekki að spá í það því við spiluðum oft án hans í fyrra. Við treystum hinum leikmönnunum. Elvar er hins vegar orðinn þannig leikmaður að íslenska landsliðið saknar hans, svo ég geri ráð fyrir því að Selfoss sakni hans líka. Ég vona að hann verði með í næsta leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert