„Fáum gott próf á laugardaginn“

Elías Már Halldórsson, þjálfari Hauka, á hliðarlínunni í leiknum í …
Elías Már Halldórsson, þjálfari Hauka, á hliðarlínunni í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Elías Már Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Hauka í Olís-deild kvenna í handknattleik, viðurkenndi fúslega að hafa verið smeykur fyrir leik Hauka gegn KA/Þór á Akureyri í kvöld. Lið hans er heitasta liðið í deildinni um þessar mundir, búið að vinna fimm góða sigra í röð eftir leik kvöldsins. Haukarnir voru betra liðið í kvöld en sigur þeirra hékk á bláþræði. Lokatölur urðu 29:27 eftir að Haukar höfðu skorað í lokasókn sinni.

Sæll Elías. Þú ert væntanlega fyrst og fremst ánægður að hafa náð stigunum tveimur hér í kvöld. Þetta var erfiður leikur fyrir ykkur.

„Ég er mjög ánægður að koma hingað og sækja tvö stig. Það er ekkert lið sem kemur hingað til að taka einhver auðveld stig, við fundum alveg fyrir því. Við náðum góðri forystu í báðum hálfleikjum en náðum ekki að halda því og fengum á okkur hörku áhlaup. Þetta datt svo með okkur í restina og mér fannst við eiga það skilið. Í heildina vorum við betri en mér fannst við gera þetta óþarflega spennandi í blálokin.“

Það vakti athygli mína að þú hikar ekki við að setja ískalda menn inn á í restina, leikmenn sem hafa ekkert komið við sögu fyrr í leiknum. Það má segja að það hafi skilað sér. Ástríður kemur í markið og Þórhildur Braga í sóknina.

„Já ég gerði það nú bara af því að mér fannst Þórhildur henta fullkomlega í þær aðstæður sem við vorum að glíma við. Hún er mjög góð maður á mann og ég treysti henni alveg í þetta dæmi. Já, ég geri þetta hiklaust. Ég er búinn að rúlla liðinu vel í allan vetur og þetta er held ég fyrsti leikurinn þar sem þrír leikmenn spila ekki neitt hjá mér. Eini tilgangur þessarar ferðar var að vinna leikinn. Það skiptir engu máli hver munurinn er í lokin. Það er bara liðið sem vinnur leikinn. Ég treysti öllum mínum leikmönnum.“

Þið voruð að vinna ykkar fimmta leik í röð eftir smá basl í byrjun móts. Síðustu fjórir leikir hafa unnist með, að meðaltali, átta mörkum. Þið eruð á siglingu.

„Við erum á góðu róli og búin að vinna okkur vel inn í mótið. Ég vissi alltaf að þetta myndi smella. Við höfum leitt alla þessa leiki en þurfum meiri stöðugleika til að vera ekki í spennuleik í restina eins og í kvöld. Við höldum bara áfram að bæta okkar leik. Við fáum gott próf á laugardaginn, gegn Val. Það verður mjög spennandi að fá þær á heimavelli. Þá kannski sjáum við fyrir alvöru hvar við stöndum,“ sagði vel sáttur þjálfarinn að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert