ÍBV tyllti sér á toppinn

Sunna Jónsdóttir, leikmaður ÍBV.
Sunna Jónsdóttir, leikmaður ÍBV. mbl.is/Hari

ÍBV vann 28:25-sigur á KA/Þór í 10. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Vestmannaeyjum í dag og tyllti sér þar með á toppinn.

Norðankonur fóru töluvert betur af stað og voru fjórum mörkum yfir snemma leiks, 7:3. Heimakonum í ÍBV tókst þó að snúa taflinu við og voru þær með tveggja marka forystu í hálfleik, 13:11. Martha Hermannsdóttir var markahæst í leiknum með átta mörk en það dugði gestunum ekki. Eyjakonur gáfu forystuna ekki frá sér og unnu að lokum þriggja marka sigur en Arna Sif Pálsdóttir var markahæst í liði ÍBV með sjö mörk.

Ásta Björk Júlísdóttir og Kristrún Hlynsdóttir úr ÍBV og Katrín Vilhjálmsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir úr KA/Þór skoruðu svo allar fjögur mörk hver. ÍBV er nú á toppi deildarinnar með 15 stig en Valur heimsækir Hauka síðar í dag og getur þar endurheimt toppsætið með sigri. KA/Þór er áfram í 5. sæti með átta stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert