Þriðji sigurleikur Stjörnunnar í röð

Sveinbjörn Pétursson átti stórleik í marki Stjörnunnar gegn Akureyri í …
Sveinbjörn Pétursson átti stórleik í marki Stjörnunnar gegn Akureyri í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sveinbjörn Pétursson átti stórleik í marki Stjörnunnar og varði 23 skot þegar liðið vann sinn þriðja leik í röð í deildinni gegn Akureyri í 9. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Garðabænum í dag en leiknum lauk með 29:26-sigri Stjörnunnar.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var staðan í hálfleik 14:13, Akureyri í vil. Garðbæingar mættu mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og náðu snemma tveggja marka forskoti. Eftir það skiptust liðin á að skora en þegar tíu mínútur voru til leiksloka var munurinn á liðunum orðinn sex mörk. 

Sveinbjörn varði afar vel í marki Stjörnunnar og Akureyringum tókst ekki að minnka muninn og lokatölur því þriggja marka sigur Stjörnunnar. Egill Magnússon var markahæstur í liði Stjörnunnar með átta mörk og Leó Snær Pétursson skoraði átta mörk fyrir Garðbæinga. Hafþór Vignisson skoraði átta mörk í liði Akureyringa og Patrekur Stefánsson fimm mörk. 

Stjarnan er áfram í sjötta sæti deildarinnar með 8 stig, þremur stigum minna en Valur sem er í fimmta sætinu en Akureyri er sem fyrr á botninum með 3 stig eftir fyrstu níu leiki sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert