Þetta leit ekki vel út

Daníel Freyr Andrésson átti góðan leik í kvöld.
Daníel Freyr Andrésson átti góðan leik í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Daníel Freyr Andrésson, markmaður Vals, var svekktur eftir 28:28-jafntefli gegn FH í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. Valsmenn gátu skorað sigurmarkið úr víti eftir að lokaflautið gall, en Antoni Rúnarssyni brást bogalistin á vítapunktinum. 

Markmaðurinn var ósáttur með að Valsmenn skyldu ekki fara með sigur af hólmi, enda í góðri stöðu í seinni hálfleik. 

„Við vorum fimm mörkum yfir í byrjun seinni og 2-3 mörkum yfir í restina. Við erum með markmanninn út af og fáum á okkur þrjú mörk í röð. Svo voru ákvarðanirnar í sókninni ekki góðar og við vorum ekki snöggir til baka. Við urðum stressaðri og þetta verða langar og klaufalegar sóknir, sem enda í erfiðum skotum og erfiðum ákvörðunum. Þeir eru svo góðir, keyra á okkur og setja mörk.“

Daníel sá ekki atvikið er Valsmenn fengu víti í lokin, en Ásbjörn Friðriksson fékk beint rautt spjald fyrir ljótt brot á Róberti Aroni Hostert. 

„Ég sé þetta ekki, en þetta leit ekki vel út. Dómararnir horfa á þetta í fimm mínútur eða eitthvað, svo það hlýtur eitthvað að vera í þessu. Hann klúðraði vítinu, svo það skiptir engu þegar upp er staðið.

Mér leið vel og við höfðum allt að vinna á þessum tímapunkti, en því miður klikkaði hann á einu af fáum vítaskotum sínum akkúrat þarna. Þetta víti var ekki það sem klúðraði þessum leik fyrir okkur, það voru tíu mínútur á undan.“

Daníel varði sjálfur 20 skot í leiknum og var nokkuð sáttur við sitt gegn uppeldisfélaginu. 

„Ég er þokkalega sáttur, en ég hefði viljað taka einn aukabolta þarna í restina, en heilt yfir er ég nokkuð sáttur,“ sagði Daníel Freyr Andrésson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert