Verðum að grípa skóflur og fara að moka

Kristján Örn Kristjánsson skýtur að marki KA í kvöld.
Kristján Örn Kristjánsson skýtur að marki KA í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Allt sem gat farið úrskeiðis fór úrskeiðis, í fyrri hálfleik sérstaklega, við þurfum að ráða fram úr því hvern andskotann við erum að gera. Þetta er ekki búið að vera nógu gott, við erum ekki að bjóða fólkinu okkar upp á það sem við eigum að geta boðið þeim upp á með þetta lið í höndunum,“ voru fyrstu orð Kristins Guðmundssonar, aðstoðarþjálfara ÍBV, eftir tap sinna manna 30:32 gegn KA á heimavelli.

„Við verðum að fara inn í okkur, til að sjá hvern andskotann er hægt að gera til að laga þetta,“ sagði Kristinn en hann afsakið síðan orðbragð sitt. Eftir leikinn sauð á Kristni eins og öðrum í ÍBV-liðinu en það var greinilega mikið áfall að tapa gegn norðanmönnum á heimavelli í kvöld.

Þetta er handboltaleikur en ekki fótboltaleikur

Nokkrir leikmenn sem taldir eru til byrjunarliðs, eða lykilmanna hjá liði ÍBV byrja á bekknum í kvöld, eru það mögulega einhver mistök sem Kristinn og Erlingur gerðu fyrir leik?

„Þetta er handboltaleikur, ekki fótboltaleikur, það á ekki að skipta neinu helvítis máli. Það getur vel verið að einhverjum finnist það en mér finnst það ekki. Hverjir spila flestar mínútur og annað slíkt hlýtur að skipta meira máli, alveg sama hver byrjar leikinn. Það var jafnt í byrjun leiks, þannig það er ekki endilega orsökin, einhverjir fróðari menn geta kannski sagt mér það. Heilt yfir er holningin á okkur, sérstaklega í fyrri hálfleik, engan veginn í boði. Við klukkum þá ekki varnarlega og erum þar af leiðandi með fá skot varin, við lítum ekkert mikið betur út heldur en á móti Gróttu í fyrsta leik, í fyrri hálfleik. Við verðum að taka ábyrgð á því og skoða hvaða lausnir við höfum til að laga þetta, við þjálfararnir hljótum að taka ábyrgð á því hvernig liðið spilar.“

ÍBV hefur oft byrjað síðari hálfleikina vel, sérstaklega á heimavelli, en eftir að þeir skoruðu fyrstu tvö mörk síðari hálfleiks kom aftur góður kafli hjá KA. ÍBV var þó í stöðu til að jafna leikinn á lokamínútunum.

„Við komum okkur í stöðu til að jafna leikinn, menn eru að berjast fyrir því að gera sitt besta í þessu, það er einhver tregða í þessu hjá okkur. Menn verða að kafa eftir því, við erum í helvítis brekku núna og nú geta menn hætt að tala um að hlutirnir komi til okkar, við þurfum að fara að vinna, við verðum að grípa skóflur og fara að moka.“

Allt að vinna, engu að tapa

Mislukkuð sending kom í veg fyrir það að Eyjamenn gætu jafnað leikinn þegar mínúta var til leiksloka en þar áður hafði ÍBV unnið boltann margoft með góðri pressuvörn þar sem liðið spilaði maður á móti manni, er það eitthvað sem liðið þarf mögulega að prófa fyrr í leikjum?

„Við fórum út í 4-2 eftir fimm mínútur í seinni hálfleik, af því okkur fannst við ekki vera að klára Tarik, það er auðvelt að segja þetta eftir á, að þegar við setjum þetta í gang. En það er spurning hvort við verðum að fara að starta þessu fyrr í leikjum, það getur bara vel verið. Þetta er neyðarlausn, að fara í maður á mann, við reyndum 6-0 sem við byrjum í, við förum í 5-1 vörnina, við endum í 4-2 vörn og síðan maður á mann. Ég held að þetta snúist miklu frekar um hugarfarið, þetta er miklu meira að menn hugsa við verðum að fara að gera eitthvað, við erum í tómu rugli hérna. Þegar menn byrja á því þá selja menn sig dýrt, við þurfum að finna hvernig við kveikjum þennan neista og hvernig við getum búið til sjálfstraust í liðinu. Hvernig getum við búið til lið sem vinnur leiki? Það er markmiðið okkar núna og það sem við verðum að horfast í augu við.“

Einar Birgir Stefánsson í liði KA átti stórleik en það er strákur sem ekki margir þekkja, hann var Eyjamönnum erfiður í dag.

„Þeir voru vel undirbúnir fyrir varnarleikinn okkar og rykktu mjög vel undir okkur, við vorum ekki að sópa nægilega vel undir okkur, ég er hræddur um að það tengist sjálfstraustinu líka. Hvar er ég í vörninni og af hverju, ef þú horfir á okkur í dag þá er agalega mikil vinna fram undan. Það er fullt af fundamental hlutum sem hanga ekki saman hjá okkur, það er búið að fara yfir þessa hluti og allt það en það vantar sjálfstraust í þetta til að framkvæma það.

Það er blóðugt að vera að tapa leikjum, við erum með tvo sigurleiki en mínus fjögur mörk eða eitthvað, þetta segir okkur að við erum ekki að skila af okkur á mínútunum sem skipta máli. Við erum að tapa þessum leikjum af því að ákvarðanatakan er ekki nógu góð, bæði varnarlega og sóknarlega og það er mjög sjálfstrauststengt, myndi ég halda, því við erum með fullt af leikmönnum í þessu liði sem eru góðir og það á að gera kröfu á okkur að fá meira út úr þessu liði,“ sagði Kristinn en Eyjamenn eiga Hauka í næsta leik og þeir eru eitt heitasta liðið í deildinni, er hann smeykur fyrir því verkefni?

„Er einhver ástæða til þess að vera smeykur við það? Höfum við ekki bara allt að vinna og engu að tapa þar? Andskotinn hafi það, við hljótum að vilja sýna fram á það að við getum eitthvað í handbolta, hvar er betra að gera það en á útivelli gegn Haukum sem eru efstir í deildinni? Ég sé ekki aðra ástæðu en þá að nýta tímann fram að þeim leik til þess að finna leið til að vinna þá, þú ferð ekkert í leik og vonar það besta, við verðum að vera sókndjarfir og moka fullt af skurðum til að finna leiðir til þess að vinna leiki, það er næsta verkefni,“ sagði Kristinn að lokum en hann var langt frá því að vera sáttur með leik sinna manna í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert