Adam Haukur tryggði Haukum stig

FH-ingurinn Bjarni Ófeigur Valdimarsson með boltann í leiknum í kvöld. …
FH-ingurinn Bjarni Ófeigur Valdimarsson með boltann í leiknum í kvöld. Heimir Óli Heimisson og Ásgeir Örn Hallgrímsson sækja að honum á meðan Daníel Þór Ingason fer í hávörn fyrir Hauka. mbl.is/Hari

Adam Haukur Baumruk tryggði Haukum jafntefli gegn erkifjendunum í FH þegar liðin áttust við í Olís-deild karla í handknattleik í æsispennandi leik í Kaplakrika í kvöld.

Leiknum lyktaði með jafntefli 25:25 og jafnaði Adam Haukum metin með þrumuskoti á síðustu sekúndum leiksins en spennan var gríðarleg í Krikanum í kvöld þar sem á annað þúsund manns voru mættir og urðu vitni að hörkuleik. Bjarni Ófeigur Valdimarsson kom FH yfir þegar um 10 sekúndur voru til leiksloka en Haukarnir brunuðu upp og fengu aukakast áður en Adam Haukur hamraði boltanum í bláhornið með þrumuskoti.

Leikir á milli FH og Hauka er ávísun á háspennuleiki en liðin skildu einnig jöfn að Ásvöllum í fyrri umferðinni.

FH-ingar voru sterkari í fyrri hálfleik og höfðu frumkvæðið. Þeir náðu mest fjögurra marka forskoti en Haukarnir áttu góðan endasprett og náðu að minnka muninn niður í eitt mark þegar flautað var til hálfleiks.

Haukarnir hófu seinni hálfleikinn af krafti og áttu FH-ingarnir í erfiðleikum með vörn Haukanna ásamt því að Andri Scheving markörður Haukanna var þeim erfiður. Haukarnir komust tveimur mörkum yfir snemma í síðari hálfleik en FH-ingar voru ekki af baki dottnir.

Kristófer Fannar Guðmundsson átti góða innkomu í markið og það var ekki síst fyrir hans góða leik sem FH náði yfirhöndinni á ný og komst tveimur mörkum yfir en Haukarnir náðu með seiglu að tryggja sér annað stigið og jafntefli voru líklega sanngjörn úrslit þegar allt er á litið.

Haukarnir eru í 3. sæti deildarinnar með 17 stig en FH-ingar eru sætinu fyrir neðan með 16.

FH 25:25 Haukar opna loka
60. mín. FH tekur leikhlé 40 sekúndur eru eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert