Ferlega ljúft að sjá boltann í netinu

Adam Haukur Baumruk tryggði Haukum stig í kvöld.
Adam Haukur Baumruk tryggði Haukum stig í kvöld. mbl.is/Golli

„Það var ferlega ljúft að sjá boltann í netinu,“ sagði Adam Haukur Baumruk, leikmaður Hauka, við mbl.is eftir jafntefli gegn FH í Olís-deildinni í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.

Haukar áttu aukakast þegar tvær sekúndur voru til leiksloka. Adam Haukur fékk boltann, lyfti sér upp og þrumaði boltanum í netið.

„Eina hugsun mín var að negla boltanum í átt að markinu og vona það besta. Ég fékk skilaboð frá Gunna að taka skotið og það var stillt upp fyrir mig.

Þessi leikurinn var keimlíkur þeim fyrri og það eru alltaf hörkuleikir á móti FH. Þetta er ekki bara handbolti heldur hálfgert sálfræðistríð. Við vorum undir í fyrri hálfleiknum en mættum sterkir út í seinni hálfleikinn. Við náðum undirtökunum en við hleyptum því miður FH-ingum inn leikinn. Þetta var hörkuleikur eins og við bjuggumst við.

Liðin eru jöfn og það er alltaf þrælgaman að taka þátt í þessum leikjum. Í þessari hörkubaráttu á toppnum munar um hvert stig,“ sagði Adam Haukur, sem skoraði fjögur mörk fyrir Haukana í kvöld, allt með þrumufleygum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert