Selfoss jafnaði Valsmenn á toppnum

Elvar Örn Jónsson var markahæstur hjá Selfossi í kvöld.
Elvar Örn Jónsson var markahæstur hjá Selfossi í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Selfoss jafnaði topplið Vals að stigum í toppbaráttu Olís-deildar karla í handknattleik eftir spennusigur á ÍR á heimavelli sínum í kvöld, 31:30.

Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi og aldrei munaði meira en tveimur mörkum á liðunum. Þannig var jafnframt staðan í hálfleik þar sem Selfoss var yfir 15:13. ÍR-ingar héldu áfram að elta eftir hlé og náðu aldrei að jafna metin.

Selfyssingar náðu hins vegar heldur ekki að hrista þá af sér þrátt fyrir að ná fimm marka forskoti um miðbik síðari hálfleiks. ÍR-ingar gáfust ekki upp heldur minnkuðu muninn í eitt mark á ný sem hleypti spennu í lokamínúturnar. Þær voru sannarlega æsispennandi en Selfyssingar héldu haus og unnu að lokum 31:30.

Elvar Örn Jónsson, sem valinn var í 28 manna hóp fyrir heimsmeistaramótið í janúar, fór fyrir Selfyssingum með átta mörk. Næstur kom Atli Ævar Ingólfsson með sex mörk. Björgvin Þór Hólmgeirsson var markahæstur hjá ÍR með átta mörk.

Selfoss er nú með 18 stig eins og Valur en ÍR er í níunda sætinu með níu stig.

Mörk Selfoss: Elvar Örn Jónsson 8, Atli Ævar Ingólfsson 6, Hergeir Grímsson 5, Guðjón Baldur Ómarsson 5, Haukur Þrastarson 4, Árni Steinn Steinþórsson 2, Ísak Gústafsson 1.

Mörk ÍR: Björgvin Þór Hólmgeirsson 8, Pétur Árni Hauksson 6, Kristján Orri Jóhannsson 5, Sturla Ásgeirsson 4, Sveinn Jóhannsson 3, Arnar Freyr Guðmundsson 2, Aron Örn Ægisson 1, Þrándur Gíslason Roth 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert