Svartfellingar unnu Serba í spennuleik

Katarina Krpez Slezak, sem var markahæst hjá Serbum með 12 …
Katarina Krpez Slezak, sem var markahæst hjá Serbum með 12 mörk, reynir að stöðva gegnumbrot frá Durdina Jaukovic í liði Svartfjallalands í kvöld. AFP

Svartfjallaland vann spennusigur á Serbíu þegar þjóðirnar áttust við í milliriðli Evrópumóts kvenna í handknattleik í Frakklandi í kvöld. Eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik sneru Svartfellingar taflinu við og unnu 28:27.

Serbar voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik og höfðu þriggja marka forskot að honum loknum 15:12. Svartfellingar unnu forskotið þó jafnt og þétt niður og náðu þriggja marka forskoti þegar skammt var eftir. Serbar skoruðu síðustu tvö mörk leiksins en komust ekki nær og lokatölur 28:27 fyrir Svartfjallaland.

Þær Durdina Jaukovic, Majda Mehmedovic og Milena Raicevic skoruðu allar sex mörk fyrir Svartfellinga en hjá Serbum fór Katarina Krpez Slezak á kostum og skoraði 12 mörk úr 13 skotum.

Þegar ein umferð er eftir í milliriðlinum er Svartfjallaland með fjögur stig í þriðja sæti, stigi á eftir Frakklandi og stigi á undan Svíum. Rússar eru þegar komnir í undanúrslit og er baráttan um að fylgja þeim hörð í lokaumferðinni. Þá mætast Svartfjallaland og Danmörk, sem á ekki möguleika að komast áfram, Frakkar mæta Serbum sem einnig eru úr leik og Svíar mæta Rússum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert