Bjarki í Lemgo - Vil skora meira og fékk mjög gott tilboð

Bjarki Már Elísson með treyju Lemgo.
Bjarki Már Elísson með treyju Lemgo. Ljósmynd/@tbvlemgolippe

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því að ég skipti,“ segir Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik, sem ákveðið hefur að söðla um og yfirgefa höfuðborg Þýskalands næsta sumar.

Bjarki hefur leikið með Füchse Berlín frá árinu 2015 og mun klára þetta tímabil með liðinu. Næsta sumar gengur hann hins vegar til liðs við annað félag í efstu deild Þýskalands, Lemgo, en Bjarki hefur gert samning við félagið sem gildir til sumarsins 2021. Lemgo er sem stendur í 10. sæti þýsku 1. deildarinnar, átta stigum á eftir Füchse sem er í 5. sæti.

Bjarki hefur á tíma sínum með Füchse meðal annars orðið heimsmeistari í tvígang og unnið EHF-keppnina, næststerkustu félagsliðakeppni Evrópu, síðastliðið vor. Þessi 28 ára gamli hornamaður sér hins vegar fram á að fá að njóta sín betur í liði Lemgo, þar sem hornamönnum sé gert hátt undir höfði undir stjórn Florian Kehrmann, hornamanns úr heimsmeistaraliði Þýskalands árið 2007.

Tilboð Lemgo betra en það sem ég hef hér

„Fyrsta hugsunin var sú að vera áfram hér í Berlín, enda líður okkur fjölskyldunni mjög vel hérna og mér líður mjög vel í liðinu því þetta er þéttur hópur. En þegar samningur manns er að renna út þá skoðar umboðsmaðurinn hvernig landið liggur, og ég fékk mjög gott tilboð frá Lemgo. Þá fór ég á fund með framkvæmdastjóranum hérna, og hann gat ekki gefið mér nein svör fyrr en í desember því málin áttu eftir að skýrast varðandi aðrar leikstöður í liðinu. Þetta er nú yfirleitt þannig í félagsliðum hérna í Evrópu að menn plana allar aðrar stöður fyrst, áður en þeir ákveða sig varðandi vinstra hornið. Án djóks. Það er oftast auðveldast að manna hana. Ég talaði tvisvar við framkvæmdastjórann en hið sama var uppi á teningnum. Tilboðið sem Lemgo bauð er líka betra fyrir mig en það sem ég hef hér, sem er svolítið sérstakt,“ segir Bjarki.

Bjarki Már Elísson var með Íslandi á EM í Króatíu …
Bjarki Már Elísson var með Íslandi á EM í Króatíu í janúar. Ljósmynd/Uros Hocevar

Þjálfarinn veit hvað hornamenn vilja

„Annað atriði í þessu er að þegar maður fór að hugsa þetta aðeins þá langar mig í stærra hlutverk. Ég er ekki stærsta nafnið í Füchse. Minn leikur er þannig að ég skora mörk, mikið af mörkum, og þannig hefur það verið í gegnum allan minn feril. En það er ekki mikið spilað upp á hornamennina hérna, hvorugu megin, því þó að Hans Lindberg sem er hægra megin skori mikið þá er það mikið til úr vítum. Ég er mikill hraðaupphlaupsmaður en við hlaupum ekki mikið af hraðaupphlaupum heldur,“ segir Bjarki, og bætir við:

„Ég kem í Lemgo í stærra hlutverk, og félagið sýndi mikinn áhuga á að fá mig. Það er alltaf gott merki þegar bæði framkvæmdastjórinn og þjálfarinn leggja mikla áherslu á það. Kehrmann þjálfari, sem spilaði lengi í Lemgo og þýska landsliðinu og var sjálfur hornamaður, sagði það beint við mig að hann vill spila mikið upp á hornin. Ég hef líka séð það sjálfur í leikjum liðsins, og að liðið spilar hratt. Ég taldi því henta vel fyrir mig að skipta á þessum tímapunkti. Ég er ekki að skora mikið hérna, og það er ekki af því að ég sé að klikka mikið heldur því ég fæ ekki mikið af færum. Það er mjög þreytt.“

Sýnt stöðugleika að undanförnu

Lemgo er eins og fyrr segir nú í 10. sæti þýsku deildarinnar. Liðið varð Þýskalandsmeistari árin 1997 og 2003, og vann EHF-keppnina árin 2006 og 2010.

„Liðið átti svo nokkur erfið ár og var í fallbaráttu en hefur náð upp fínum stöðugleika á allra síðustu árum. Þetta er ungt og ferskt lið, sem ef allt gengur upp getur komist í hóp átta efstu liða. Þar fyrir ofan koma lið sem eru bara með sterkari hópa í dag. Félagið er svo að leitast eftir því að taka næsta skref,“ segir Bjarki.

Bjarki Már Elísson klárar tímabilið með Füchse Berlín en fer …
Bjarki Már Elísson klárar tímabilið með Füchse Berlín en fer svo til Lemgo í sumar. Ljósmynd/Füchse Berlín

Langar fáránlega mikið á HM í mekka handboltans

Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari tilkynnti í gær hvaða 28 leikmenn koma til greina fyrir HM í Þýskalandi og Danmörku í janúar. Bjarki er að sjálfsögðu þar á meðal en þegar kemur að því að velja tvo vinstri hornamenn í 16 manna HM-hópinn þá er ljóst að Bjarki á sem fyrr í blóðugri samkeppni við fyrirliðann Guðjón Val Sigurðsson og Stefán Rafn Sigurmannsson. Hvernig metur hann stöðuna?

„Þetta er þreytt staða,“ segir Bjarki nokkuð léttur. „Svona er bara staðan og ekki hægt að breyta því. Mig langar auðvitað fáránlega mikið til að vera með, á HM í mekka handboltans hér í Þýskalandi og Danmörku. Þetta gerist ekki mikið stærra. Svo eru spennandi hlutir að gerast í landsliðinu, margir ungir að koma upp og svona,“ segir Bjarki, en fer ekki nánar út í vonir sínar um að komast í HM-hópinn.

„Við erum ekki með þessa samkeppni í neinni annarri stöðu, með fullri virðingu fyrir leikmönnum í öðrum stöðum. Það er smá pirrandi, en svona er þetta og það kemur bara í ljós hvernig þetta verður,“ segir Bjarki.

Bjarki Már Elísson á landsliðsæfingu.
Bjarki Már Elísson á landsliðsæfingu. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert