Stelpurnar hans Þóris halda í vonina

Stine Bredal Oftedal fagnar einu af mörkum sínum í dag.
Stine Bredal Oftedal fagnar einu af mörkum sínum í dag. AFP

Norska kvennalandsliðið í handknattleik, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, heldur enn í vonina um að komast í undanúrslit á Evrópumótinu í Frakklandi.

Stelpurnar hans Þóris, sem eiga titil að verja, unnu í dag sinn þriðja leik í röð þegar þær lögðu Spánverja í lokaleik sínum í milliriðli tvö 33:26.

Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik og eftir hann voru Norðmenn einu marki yfir 18:17. Í síðari hálfleik tók norska liðið völdin og innbyrti öruggan sigur og þriðja stórsigurinn í röð en Noregur náði mest 10 marka forystu í seinni hálfleiknum.

Stine Bredal Oftedal skoraði 8 mörk fyrir Norðmenn og Camilla Herrem og Malin Aune voru með 4 mörk hvor. Jimenez Lopez var markahæst í liði Spánverja með 5 mörk en Spánn endaði án stiga.

Norðmenn enduðu með 6 stig og komust upp að hlið Rúmena og Hollendinga. Rúmenía mætir Ungverjalandi síðar í dag og Holland leikur við Þýskaland í kvöld. Fjögur lið geta endað með 6 stig í riðlinum og þá munu innbyrðisviðureignir og markatala ráða því hvaða tvö lið fara í undanúrslitin.

Í milliriðli eitt mörðu Danir sigur á Svartfellingum 24:23. Danir áttu ekki möguleika á að komast í undanúrslitin en tap Svartfellinga gerði það að verkum að þeir eiga ekki möguleika á að komast í undanúrslit.

Anne Metta Hansen var markahæst í liði Dana með 6 mörk en hjá Svartfellingum var Jovanka Radecevic atkvæðamest með 7 mörk.

Danmörk og Svarfjalland fengu 4 stig, Frakkar eru með 5 stig og mæta Serbum í kvöld og Rússar eru efstir með 8 stig og eru komnir í undanúrslitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert