HSÍ fær hæsta styrkinn úr Afrekssjóði ÍSÍ

Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari ræðir við lærisveina sína.
Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari ræðir við lærisveina sína. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handknattleikssamband Íslands fékk hæsta styrkinn hjá Afrekssjóði ÍSÍ fyrir árið 2018 en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ÍSÍ.

HSÍ fékk 51,6 milljónir króna og Fimleikasamband Ísland kemur næst með 37,4 milljónir króna. Alls var rétt tæpum 349 milljónum króna úthlutað til sérsambandanna 27. Er það um 100 milljóna króna hækkun frá síðasta ári, en endanlegar tölur vegna ársins 2017 voru rúmar 249 milljónir króna.

Í fréttatilkynningu frá ÍSÍ segir:

Miklar breytingar hafa átt sér stað hjá Afrekssjóði ÍSÍ á árinu. Að loknu Íþróttaþingi ÍSÍ 2017 var samþykkt ný reglugerð fyrir sjóðinn og hefur allt ferli í kringum styrkveitingar, kröfur og eftirfylgni tekið breytingum frá fyrri árum.

Heilt yfir má segja að breytingarnar hafi gengið vel og fulltrúar sérsambanda ÍSÍ hafa tekið nýju vinnulagi fagnandi og farið í mikla vinnu við að skipuleggja enn frekar afreksstarf sérsambanda og unnið að því að uppfylla þær kröfur sem nýtt umhverfi afreksíþrótta felur í sér.

Stjórn Afrekssjóðs ÍSÍ festi ákveðinn ramma fyrir styrkveitingar sem kynntur var fyrir sérsamböndum og fól í sér upplýsingar um áherslur sjóðsstjórnar vegna ársins 2018. Samhliða því staðfesti stjórn sjóðsins flokkun sérsambanda í afreksflokka, en slíkt er ein forsenda þeirra möguleika sem hvert sérsamband hefur gagnvart úthlutunum og stillir jafnframt af þær kröfur sem gerðar eru til viðkomandi sérsambands.

Verkaskipting á milli stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ og stjórnar Afreks– og Ólympíusviðs ÍSÍ hefur einnig tekið breytingum samhliða nýju fyrirkomulagi og hafa breytingarnar tekist vel. Með breytingunum hafa aðilar í stjórn sviðsins tekið að sér að vera í reglulegum samskiptum við sérsambönd og sett sig betur inn í það starf sem á sér stað innan þeirra. Heilt yfir má segja að aukin samskipti, upplýsingastreymi og stefnumótun hafi einkennt þetta ár og var það ein af áherslum þeirra breytinga sem gerðar voru á Afrekssjóði ÍSÍ og afreksstarfi ÍSÍ og sérsambanda.

Afreksstyrkir fyrir árið 2018

Afreksstyrkir fyrir árið 2017

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert