Holland hreppti bronsið í Frakklandi

Hollensku leikmennirnir fagna í leikslok.
Hollensku leikmennirnir fagna í leikslok. AFP

Holland hreppti bronsverðlaun á Evr­ópu­móti kvenna í hand­knatt­leik í Par­ís rétt í þessu með því að leggja Rúmeníu að velli, 24:20.

Hollendingar unnu einvígi liðanna í milliriðli keppninnar og þeir fóru miklum mun betur af stað í dag og voru sjö mörkum yfir í hálfleik, 15:8. Estevana Polman var markahæst í liði Hollands með sex mörk og þær Lois Abbingh og Cornelia Nycke Groot voru báðar með fimm.

Rúmenar bitu frá sér í síðari hálfleiknum og skoruðu meðal annars fimm mörk í röð til að minnka muninn í þrjú mörk undir lokin eftir að hafa verið mest átta mörkum undir. Valentina Neli Ardean Elisei var markahæst Rúmena með sex mörk en áhlaup þeirra í síðari hálfleik dugði ekki til er þeim tókst ekki að skora mark síðustu fimm mínútur leiksins.

Frakkland mætir svo Rússlandi í úrslitaleiknum klukkan 16:30 í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert