Eigum þrjá heimsklassa vinstri hornamenn

Guðmundur Þórður Guðmundsson og aðstoðarmaður hans, Gunnar Magnússon.
Guðmundur Þórður Guðmundsson og aðstoðarmaður hans, Gunnar Magnússon. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari íslenska karlalandsliðins í handknattleik opinberaði í dag 20 manna æfingahóp fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í Þýskalandi og Danmörku í næsta mánuði.

Landsliðið spilar fimm leiki áður en flautað verður til leiks á HM. Það mætir Barein í tveimur vináttuleikjum í Laugardalshöll í lok mánaðarins og fer síðan á mót í Noregi og leikur við Noreg, Holland og Brasilíu. Fyrsti leikur íslenska liðsins á HM verður 11. janúar en leikir Íslands í riðlakeppninni verða spilaðir í München í Þýskalandi. Þrjár efstu þjóðirnar komast svo í milliriðil sem spilaður verður í Köln.

„Ég þurfti að liggja vel og lengi yfir þessu vali og ég held að ég hafi aldrei horft á jafn marga leiki á ævinni eins og núna. Ég hef verið að skoða andstæðinga okkar sem við mætum á HM og fylgjast með okkar leikmönnum út um allt. Það hefur aldrei farið jafn mikil vinna í þetta. Það eru leikir á Íslandi í deild sem hefur ákveðinn styrkleika, í Danmörku, í Ungverjalandi, í Þýskalandi og í Meistaradeildinni. Á endanum er þetta niðurstaðan en ég tek það þó fram að ég valdi 28 manna hóp og ég get kallað inn menn úr honum. Við förum af stað með þennan 20 manna hóp og svo sjáum svo til,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is eftir fréttamannafund HSÍ í Kringlunni í dag en Gísli Þorgeir Kristjánsson, Haukur Þrastarson og Rúnar Kárason hafa allir glímt við meiðsli.

Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson er klár í slaginn.
Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson er klár í slaginn. AFP

Enginn lúxus fyrir þjálfarann

Það sem vakti einna mesta athygli í vali Guðmundar er að Bjarki Már Elísson leikmaður þýska liðsins Füchse Berlin er úti í kuldanum en vinstri hornamennirnir í hópnum eru landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson og Stefán Rafn Sigurmannsson.

„Ég hef aldrei staðið fyrir erfiðara vali og ástæðan er sú að ég er með þrjá frábæra hornamenn sem allir eru í heimsklassa. Bæði Stefán og Bjarki eru að spila með tveimur mjög sterkum liðum. Annar er að spila í Meistaradeildinni en hinn í þýsku Bundesligunni. Báðir eru frábærir karakterar og frábærir í hóp. Þeir eru samt ólíkir og hafa hvor um sig sína kosti. Guðjón Valur hefur spilað frábærlega með Löwen í vetur og er í heimsklassa eins og Stefán og Bjarki. Guðjón gaf kost á sér og eftir mikla yfirlegu komst ég að þessari niðurstöðu. Menn kalla þetta lúxusvandamál en þetta er enginn lúxus fyrir þjálfarann,“ sagði Guðmundur Þórður.

Ætlar þú að taka þrjá markverði á HM?

„Nei ég reikna ekki með því en það sem mér þykir mikilvægt að segja varðandi allar stöður að ef við metum það svo að ef við þurfum að gera einhverjar breytingar út af frammistöðu eða einhverju öðru þá erum við klárir í það. Við viljum nota tímann á milli jóla og nýárs að taka stöðu á mönnum. Við höfum ekki meira svigrúm. Við þurfum að skoða hver er staðan á Gísla Þorgeiri sem hefur glímt við meiðsli og sömuleiðis hjá Hauki og Rúnari  og þá erum við að skoða línumannsstöðuna og miðjustöðuna. Það er enn smá óvissa í gangi. Við erum að móta nýtt og það eru óvissa útaf reynsluleysi og að sumir hafa átt við meiðsli að stríða. Það er óvissa hvað þú færð út úr ungum leikmönnum. Það er staða íslenska landsliðsins í dag.“

Fyrsta markmiðið að komast í milliriðilinn

Á HM spilar Ísland í B-riðli ásamt Króatíu, Spáni, Makedóníu, Barein og Japan.

„Fyrsta markmið okkar verður að komast í milliriðilinn. Það verður ekki einfalt og það þarf að ganga allt upp ef það á að takast. Það má ekki misstíga sig víða. Við byrjum mótið mjög bratt með því að mæta Króötum og Spánverjum í fyrstu tveimur leikjunum. Okkur hefur ekki tekist að vinna Króata á stórmóti hingað til og Spánverjar eru ríkjandi Evrópumeistarar. Fyrir ungt lið eins og okkar er þetta stór biti. Við þurfum að komast vel í gegnum þessa leiki og við ætlum að standa okkur vel í þeim. Fyrir fram eru þessi tvö lið sterkari en við. Makedónía er alltaf erfiður mótherji og Barein og Japan eru sýnd veiði en ekki gefin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert