Stoltur og glaður að fá þetta tækifæri

Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er bara gríðarlega stoltur og glaður að fá þetta tækifæri,“ sagði Patrekur Jóhannesson í samtali við mbl.is en eins og fram kom á mbl.is í morgun tekur Patrekur við þjálfun danska meistaraliðsins Skjern næsta sumar.

Samningur Patreks við Skjern er til þriggja ára og tekur hann formlega til starfa hjá félaginu þann 1. júlí en samningur hans við Selfoss rennur út eftir tímabilið.

„Eins og ég ræddi við þig um daginn þá leist mér gríðarlega vel á allt sem snýr hjá félaginu þegar ég ræddi við það á dögunum og skoðaði aðstæður hjá því. Ég var búinn að heyra margt mjög jákvætt um félagið og ræddi til að mynda við Aron Kristjánsson og fleiri sem þekkja þarna til. Ég sá hversu öflugt Skjern er. Aðstaðan hjá því er til fyrirmyndar og ég hef ekki séð svona góða aðstöðu hjá þeim liðum sem ég hef verið að þjálfa hjá. Þetta heillaði mig mikið og leikmennirnir sömuleiðis.

Hjá Skjern er fullt af landsliðsmönnum, núverandi og fyrrverandi, og reyndir kappar sem ég hlakka til að vinna með. Auðvitað þurfti maður að velta ýmsum hlutum fyrir sér. Ég er með stóra fjölskyldu og börn á öllum aldri. Fyrsta árið verð ég einn svo við reynum við bara að halda tvö heimili til að byrja með og púsla þessu öllu saman,“ sagði Patrekur.

Björgvin Páll Gústavsson er markvörður Skjern.
Björgvin Páll Gústavsson er markvörður Skjern. AFP

Björgvin Páll Gústavsson og Tandri Már Konráðsson leika með Skjern en Tandri yfirgefur liðið eftir tímabilið.

„Ég þarf að finna góðan markvörð en markvörðurinn ungi Emil Nielsen er búinn að semja við franska liðið Nantes. Ég er strax byrjaður að líta í kringum mig með markvörð,“ sagði Patrekur, sem er á sínu öðru ári með hið unga lið Selfyssinga.

Draumurinn að vinna titil með Selfossi

„Vonandi get ég kvatt Selfoss á góðu nótunum og það yrði gaman að kveðja með titli eins og ég gerði hjá Haukum á sínum tíma. Það hefur gengið frábærlega á Selfossi. Selfoss-liðið átti gott tímabil áður en ég tók við því en var samt fjórum stigum frá botninum. Ég er mjög stoltur af því hvað við náðum að gera á síðustu leiktíð. Við vorum einu marki frá því að vinna fyrsta titilinn og á þessu tímabili erum við í baráttu á öllum vígstöðvum þótt við höfum verið alveg skelfilegir í síðasta leik. Við erum tveimur stigum frá efsta sætinu í deildinni og erum komnir í átta liða úrslitin í bikarnum. Ég mun leggja allt í sölurnar eftir áramótin með Selfoss-liðinu og draumurinn er að vinna titil með því áður en ég hætti,“ sagði Patrekur.

Nú ert þú með leikmenn eins og Elvar Örn Jónsson og Hauk Þrastarson sem báðir hafa stimplað sig inn í landsliðið og hafa alla burði til að komast í atvinnumennsku. Kemur til greina að taka þá með þér til Skjern?

„Ég er ekki kominn svo langt. Ég vissi að Skjern missir markvörðinn og ég er byrjaður að kanna það hver mun fylla hans skarð. Kjarninn í liðinu er með samning. Auðvitað veit ég að ungir leikmenn eru að spá í að fara út og einhverjir þeirra eru frá Selfossi. Ég veit hvað þessir strákar geta eins og landsliðsmennirnir Elvar og Haukur. Ég er búinn að þjálfa þá í tvö ár og veit hversu topp leikmenn þeir eru orðnir. Ef þeir eru að huga að því að fara út þá mun ég skoða það ef það passar inn í liðið en kannski verða þeir bara áfram á Selfossi,“ sagði Patrekur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert