Jafnt í háspennu í Garðabæ

Laufey Ásta Guðmundsdóttir, Stjörnunni, með boltann gegn KA/Þór í kvöld …
Laufey Ásta Guðmundsdóttir, Stjörnunni, með boltann gegn KA/Þór í kvöld en Martha Hermannsdóttir er til varnar. mbl.is/Eggert

Stjarnan og KA/Þór skildu jöfn, 21:21, er þau mættust í 12. umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í kvöld. Lokamínúturnar voru æsispennandi, en Stjarnan fékk fínt tækifæri til að næla í stigin tvö undir lokin en Olgica Andrijasevic reyndist hetjan í marki gestanna. Hún varði lokaskot leiksins og 18 skot alls. 

Jafnræði var með liðunum framan af og var staðan 5:5 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Stærsta ástæða þess að Stjarnan var ekki nokkrum mörkum yfir á þeim kafla var Olgica Andrijasevic, markmaður KA/Þórs, en hún varði hvað eftir annað vel og oft úr dauðafærum.

Sóknarleikur KA/Þórs var vart boðlegur í fyrri hálfleik og tapaði liðið boltanum ótrúlega oft með slökum sendingum, sem rötuðu beint á mótherja. Eftir því sem leið á hálfleikinn fór Stjarnan að refsa fyrir mistök KA/Þórs með auðveldum mörkum og var staðan í hálfleik 13:8.

Olgica Andrijasevic varði ellefu skot í hálfleiknum og þar af eitt vítakast og oftar en ekki úr mjög góðum færum. Hún var ein síns liðs að koma í veg fyrir að Stjarnan myndi algjörlega stinga af.

KA/Þór fór mikið mun betur af stað í síðari hálfleik og náði að minnka muninn í eitt mark, 13:12, með fjórum fyrstu mörkum hálfleiksins. Stjarnan skoraði ekki fyrr en á tíundu mínútu hálfleiksins. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var staðan 16:14, KA/Þór í vil. 

KA/Þór jafnaði loksins tæpum tíu mínútum fyrir leikslok, 17:17, og skömmu síðar komust gestirnir yfir í fyrsta skipti, 18:17. Stjarnan jafnaði í 18:18, fimm mínútum fyrir leikslok. Liðin skiptust á að skora næstu mínútur og Sólveig Lára Kristjánsdóttir jafnaði í 21:21 þegar rúm hálf mínúta var til leiksloka og þar við sat. 

Stjarnan 21:21 KA/Þór opna loka
60. mín. Olgica Andrijasevic (KA/Þór) varði skot Í innkast.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert