Mjög sárar að tapa stigi

Stefanía Theodórsdóttir tekur skot.
Stefanía Theodórsdóttir tekur skot. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum mjög sárar með að tapa stigi. Við ætluðum að vinna þennan leik, en við verðum að sætta okkur við stigið,“ sagði Stefanía Theodórsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 21:21-jafntefli við KA/Þór í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. 

Stjarnan var fimm mörkum yfir í hálfleik, en byrjaði síðari hálfleikinn afar illa og skoraði ekki fyrsta markið sitt fyrr en eftir 12 mínútur í honum. 

„Við vorum að standa vörnina rosalega vel en sóknin var ekki nægilega góð. Við þurftum stundum að standa vörnina lengi, þar sem sóknirnar þeirra voru oft langar. Við náðum ekki að fá hraðaupphlaup eins og í fyrri hálfleik.

Stóri munurinn er að við fengum ekki þessi auðveldu mörk sem við vorum að fá í fyrri hálfleik. Hún var að verja helvíti mikið frá okkur, en við vorum að standa vel í vörninni og fá fullt af færum. Við getum séð eitthvað jákvætt í þessu.“

Eftir erfiða byrjun á leiktíðinni hefur Stjarnan ekki tapað í síðustu fjórum leikjum sínum. 

„Þetta er allt að koma. Vörnin er betri og við erum að skapa okkur mikið fleiri væri en við vorum að gera. Tæknifeilarnir eru mikið færri og við erum á réttri leið,“ sagði Stefanía Theodórsdóttir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert