Lindgren hættir með Íslendingaliðið

Ole Lindgren.
Ole Lindgren. Ljósmynd/Kristianstad

Sænski handboltaþjálfarinn Ola Lindgren lætur af störfum hjá Íslendingaliðinu Kristianstad eftir tímabilið.

Lindgren hefur náð frábærum árangri með lið Kristianstad þau sjö ár sem hann hefur stýrt liðinu. Undir hans sjórn hefur liðið orðið sænskur meistari fjórum sinnum og komst í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Þrír íslenskir landsliðsmenn leika með liðinu en það eru þeir Ólafur Guðmundsson, Teitur Örn Einarsson og Arnar Freyr Arnarsson en sá síðastnefndi er búinn að semja við danska liðið GOG og gengur í raðir þess í sumar. Allir eru þeir í landsliðshópnum sem er í eldlínunni á HM.

Svíinn Ljubomir Vranjes hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá Kristianstad. Hann þjálfaði þýska liðið Flensburg með góðum árangri frá 2010 til 2017. Vranjes þjálfaði ungverska liðið Veszprém og ungverska landsliðið samhliða því en var rekinn úr báðum störfum í október á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert