Fram valtaði yfir ÍBV í Eyjum

Ragnheiður Júlíusdóttir átti frábæran leik fyrir Fram og skoraði átta …
Ragnheiður Júlíusdóttir átti frábæran leik fyrir Fram og skoraði átta mörk. mbl.is/Hari

Fram gerði sér lítið fyrir og vann átta marka sigur gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í 13. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í dag en leiknum lauk með 31:23-sigri Fram. Jafnræði var með liðunum framan af en á 15. mínútu náði Fram þriggja marka forskoti. Leikmenn ÍBV reyndu hvað þær gátu að halda í við Framara en staðan að loknum fyrri hálfleik var 17:12, Fram í vil.

ÍBV tókst að minnka muninn í þrjú mörk þegar 45 mínútur voru liðnar af leiknum en þá settu Framarar í annan gír og unnu að lokum sannfærandi átta marka sigur. Ester Óskarsdóttir var markahæst í liði ÍBV með sex mörk og Sunna Jónsdóttir skoraði fimm mörk fyrir ÍBV.

Hjá Fram var það Ragnheiður Júlíusdóttir sem skoraði mest allra eða átta mörk, þar af tvö af vítalínunni. Þórey Rósa Stefánsdóttir var einnig atkvæðamikil með fimm mörk. Fram jafnar þar með Val að stigum en Valsstúlkur eru í efsta sæti deildarinnar með 19 stig. ÍBV er áfram í þriðja sætinu með 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert