Aðalsteinn framlengir hjá Erlangen

Aðalsteinn Eyjólfsson, lengst til hægri, og nokkrir leikmanna hans fagna …
Aðalsteinn Eyjólfsson, lengst til hægri, og nokkrir leikmanna hans fagna í leik hjá Erlangen. Ljósmynd/Erlangen

Aðalsteinn Eyjólfsson hefur framlengt samning sinn sem þjálfari þýska 1. deildarliðsins Erlangen í handknattleik og er nú samningsbundinn félaginu til loka tímabilsins 2020.

Aðalsteinn tók við Erlangen í október árið 2017 og kom þangað eftir að hafa áður stýrt liði Hüttenberg, þar sem liðið vann sig upp um tvær deildir á tveimur árum undir hans stjórn. Samningur Aðalsteins átti að renna út næsta sumar en forráðamenn Erlangen eru mjög ánægðir með störf hans og framlengdu um eitt ár.

„Aðalsteinn Eyjólfsson er að vinna gott starf hjá Erlangen og undir hans stjórn hefur liðið sýnt miklar framfarir. Ég er mjög ánægður að geta séð liðið í áframhaldandi þróun undir hans stjórn,“ er haft eftir Kevin Schmidt, yfirmanni íþróttamála hjá Erlangen.

Sjálfur er Aðalsteinn mjög ánægður með að vera áfram hjá félaginu.

„Ég er mjög ánægður að geta haldið samstarfinu áfram. Við erum að stíga skref í rétta átt og eigum enn meira inni,“ sagði Aðalsteinn, en Erlangen situr í 11. sæti þýsku 1. deildarinnar og komst í átta liða úrslit í bikarkeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert