Þægilegt hjá Val gegn Stjörnunni

Laufey Ásta Guðmundsdóttir í Stjörnunni sækir að Valskonunum Lovísu Thompson …
Laufey Ásta Guðmundsdóttir í Stjörnunni sækir að Valskonunum Lovísu Thompson og Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur endurheimti efsta sæti Olísdeildar kvenna í handknattleik þegar liðið fékk Stjörnuna í heimsókn í 13. umferð deildarinnar á Hlíðarenda en leiknum lauk með þægilegum þriggja marka sigri Valskvenna, 19:16.

Valskonur byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu snemma þriggja marka forystu. Stjarnan vann sig vel inn í leikinn og tókst að minnka muninn í eitt mark eftir tíu mínútna leik. Þá stigu Valskonur aftur á bensíngjöfina og var munurinn á liðunum aftur orðinn þrjú mörk þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Stjörnustúlkur gáfust ekki upp og á meðan Valsliðið fór illa með sóknir sínar tókst Garðbæingum að minnka muninn í eitt mark og staðan 9:8 í hálfleik, Val í vil.

Valskonur byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og náðu fjögurra marka forystu eftir 40 mínútna leik. Garðbæingar gerðu hvað þær gátu til þess að jafna metin en þeim tókst að minnka forskot Valskenna niður í tvö mörk þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Valskonur héldu áfram nýta sér mistök í sóknarleik Stjörnukvenna og var munurinn á liðunum orðinn fjögur mörk þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Það bil tókst Garðbæingum ekki að brúa og Valur fagnaði því öruggum þriggja marka sigri.

Íris Ásta Pétursdóttir var markahæst í liði Vals með 5 mörk og hjá Stjörnunni var það Þórey Anna Ásgeirsdóttir sem var atkvæðamest með 6 mörk. Þá varði Íris Björk Símonardóttir 15 skot í marki Valskvenna og Hildur Öder Einarsdóttir varði 17 skot í marki Stjörnunnar. Valur er áfram í efsta sæti deildarinnar, nú með 19 stig, og hefur tveggja stiga forskot á Fram, sem er í öðru sætinu en Stjarnan er í sjötta sætinu með 9 stig.

Valur 19:16 Stjarnan opna loka
60. mín. Hildur Öder Einarsdóttir (Stjarnan) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert