Afar óvænt tap Íslendingaliðsins

Ólafur Guðmundsson í leik með Kristianstad.
Ólafur Guðmundsson í leik með Kristianstad. Ljósmynd/Emil Langvad

Íslendingaliðið Kristianstad, sem er ríkjandi Svíþjóðarmeistari í handknattleik, tapaði afar óvænt í deildinni í kvöld þegar liðið heimsótti botnbaráttulið AIK í lokaumferð úrvalsdeildarinnar.

Kristianstad var fyrir lokaumferðina í kvöld með 52 stig eftir 31 leik og níu stiga forskot á toppnum en AIK í næstneðsta sæti og í bullandi fallhættu. Það skipti engu máli í kvöld. AIK var yfir í hálfleik, 13:11, og þótt Kristianstad hafi náð að komast yfir á tímabili dugði það ekki til. Lokatölur 26:22 fyrir AIK sem þar með fer í umspil en Hammarby féll úr deildinni.

Ólafur Guðmundsson og Arnar Freyr Arnarsson skoruðu báðir þrjú mörk fyrir Kristianstad en Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað. Þrátt fyrir tapið endaði Kristianstad með átta stigum meira en næsta lið.

Ágúst Elí Björgvinsson var einnig á ferðinni í deildinni í kvöld með liði sínu Sävehof og vann Ystads, 34:27. Ágúst Elí var í hlutverki varamarkvarðar Sävehof í leiknum, en liðið endaði í sjöunda sæti með 37 stig.

Nú taka við átta liða úrslitin um sænska meistaratitilinn og þar er Kristianstad sigurstranglegt sem fyrr, og gæti mætt Sävehof en liðið fær að velja sér andstæðing í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert