Dæmdu í sjötta sinn í Meistaradeildinni

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson handknattleiksdómarar.
Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson handknattleiksdómarar. mbl.is/Golli

Handknattleiksdómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu í dag sinn sjötta leik á keppnistímabilinu í Meistaradeild Evrópu í karlaflokki í Lissabon þegar Sporting og ungverska liðið Veszprém leiddu saman hesta sína. 

Viðureignin var sú fyrri af tveimur á milli liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Veszprém vann með tveggja marka mun, 30:28, og stendur þar af leiðandi vel að vígi fyrir síðari leikinn sem fram fer í Ungverjalandi á laugardaginn.

Anton Gylfi og Jónas hafa fengið ágæta dóma fyrir frammistöðu sína í leikjum Meistaradeildarinnar í vetur eins og undanfarin keppnistímabil. Hefur það m.a. leitt til þess að þeir hafa í tvígang á síðustu árum dæmt leiki á úrslitahelgi keppninnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert