Afturelding var með pálmann í höndunum

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Afturelding var með pálmann í höndunum, ég ætla ekki að halda öðru fram,“ sagði feginn Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 28:25-sigur sinna manna í framlengdum fyrsta leik gegn Aftureldingu í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta. 

Afturelding var marki yfir og með boltann þegar nokkrar sekúndur voru eftir. Anton Rúnarsson komst þá inn í sendingu og skoraði jöfnunarmark í þann mund sem tíminn rann út. 

„Einar tekur leikhlé þegar það eru rúmar 10 sekúndur eftir og við þurftum að pressa og taka sénsa. Við gerðum það og það leiddi til tæknifeils. Það eina sem Afturelding mátti ekki gera var að fá á sig tæknifeil. Það gerðist hins vegar og Anton skoraði. Við fengum líflínu og vorum betri eftir það,“ sagði Snorri um lokasekúndurnar. 

Snorri var ánægður með varnarleik sinna manna í leiknum og þá sérstaklega í seinni hálfleik, sem Valur vann með fjórum mörkum. 

„Við vorum frábærir í vörninni, sérstaklega í seinni hálfleik og Danni var magnaður. Það er ekkert leyndarmál að við þurfum að standa vörnina og fá Danna í gang. Í sókninni áttum við erfitt og við vorum með of marga tæknifeila. Við þurfum að laga það,“ sagði Snorri. Hann hrósaði ungum leikmönnum Vals fyrir sína innkomu undir lokin, eftir að Alexander Örn Júlíusson og Orri Freyr Gíslason fengu sínar þriðju brottvísanir og þar með rautt spjald. 

Risasigur fyrir okkur

„Þetta er risasigur fyrir okkur. Við lendum í mikið af áföllum og missum bæði Orra og Alex í leiknum. Það voru aukaleikarar sem gerðu vel í dag. Oggi [Þorgils Jón Svövu Baldursson] var stórkostlegur og Benni litli [Benedikt Gunnar Óskarsson] var frábær og svo tók Einar [Baldvin Baldvinsson] víti.

Við vorum tilneyddir til að setja menn eins og Ogga inn á þar sem Orri og Alex fá þrisvar tvær mínútur. Það hefur ekki farið mikið fyrir Ogga. Hann er í frábæru liði og erfiðri samkeppni, en hann er stórkostlegt eintak, Þorgils Jón Svölu Baldursson,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert