Of upptekinn við að öskra á sjálfan mig

Pálmar Pétursson varði 13 skot í marki Aftureldingar í kvöld.
Pálmar Pétursson varði 13 skot í marki Aftureldingar í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Þetta var rosalega jafn leikur. Fyrsta korterið í síðari hálfleik, sá kafli fer 7:2 fyrir Val og það er helvíti dýrt að setja bara tvö mörk á korteri á móti Val, sérstaklega í svona jöfnum leik," sagði svekktur Pálmar Pétursson í samtali við mbl.is í kvöld. 

Pálmar stóð í markinu hjá Aftureldingu í afar svekkjandi 25:28-tapi fyrir Val í fyrsta leik átta liða úrslitanna á Íslandsmótinu í handbolta. Afturelding var með boltann og marki yfir þegar nokkrar sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma en misstu hann klaufalega og Valsmenn tryggðu sér framlengingu. 

„Við fengum gott tækifæri til að klára leikinn í venjulegum leiktíma. Við urðum að ná að skjóta úr því, hvort sem það var á markið eða ekki. Í staðinn fá þeir hraðaupphlaup og jafna. Það munar ógeðslega litlu í svona litlum leikjum. Þeir voru bara örlítið betri en við og við hlökkum til að fá þá í heimsókn í Mosó á mánudaginn.

Ég sá þetta ekki nógu vel. Ég var of upptekinn við að öskra á sjálfan mig. Það kemur klipping á Birki en hún heppnaðist ekki. Við hefðum kannski getað framkvæmt þetta betur, en þetta var óheppni. Við áttum að ná skoti á markið því það er skárra ef þetta hefði verið varið eða ekki hitt markið. Það hefði líka verið helvíti gott að fokking skora bara," sagði Pálmar. 

Staðan eftir fyrri hálfleik framlengingarinnar var 26:25, Val í vil. Afturelding skoraði ekki í seinni hálfleiknum. 

„Þetta var 50/50 leikur í framlengingunni. Við klikkum á víti á meðan Róbert skorar undir klofið á mér. Þetta er bara sentímetraspursmál hvernig þessi leikur áfram. Nú er það bara áfram gakk," sagði Pálmar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert