„Vorum geggjaðir í vörninni“

Björgvin Hólmgeirsson.
Björgvin Hólmgeirsson. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Þetta var ágætt hjá okkur í dag, en þeir eru 1:0 yfir og við fengum ekkert út úr þessu, því miður,“ sagði Björgvin Hólmgeirsson sem var markahæstur í spræku liði ÍR sem tapaði 27:26 gegn Selfossi í fyrsta leiknum í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta.

Selfoss varð í 2. sæti í Olísdeildinni en ÍR í því sjöunda en Björgvin vill ekki meina að munurinn á liðunum sé svo mikill.

„Við erum ekkert verra lið þó að við séum í 7. sæti í deildinni. Menn hafa verið mikið meiddir í vetur og við höfum aldrei verið með fullskipað lið. Okkur vantar Bergvin [Gíslason] í kvöld, hann verður með í næsta leik og Elías [Bóasson] var veikur í vikunni og kemur vonandi inn líka. Við þurfum að halda sömu ákefð á mánudaginn og berja á þeim. Við vorum geggjaðir í vörninni í kvöld en náðum ekki að fá hraðaupphlaupin sem við vildum fá þannig að þar er eitthvað sem við getum nýtt betur,“ bætti Björgvin við.

Lokakaflinn var æsispennandi og ÍR var hársbreidd frá því að knýja fram framlengingu eftir magnaðan varnarleik á lokakaflanum.

„Þessi lokamörk sem Selfyssingar voru að skora, einhver undirhandarskot, eru algjör óþarfi hjá okkur. En svona er handboltinn stundum, þú getur skotið af fjórtán metrunum og skorað og auðvitað eru þeir líka fáránlega góðir skotmenn, Haukur Þrastar og Elvar Örn. Svona er bara úrslitakeppnin. Við erum ekki sáttir við að tapa hér í kvöld en við getur byggt á þessu og við ætlum okkur að koma hingað aftur á miðvikudaginn,“ sagði Björgvin að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert