„Heimskulegt hjá mér“

Haukur Þrastarson átti góðan leik fyrir Selfyssinga í kvöld og …
Haukur Þrastarson átti góðan leik fyrir Selfyssinga í kvöld og skoraði sjö mörk. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er virkilega sáttur að ná að klára þetta og við sýndum frábæran karakter hérna í kvöld,“ sagði Haukur Þrastarson, leikmaður Selfoss, í samtali við mbl.is eftir 29:28-sigur liðsins gegn ÍR í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Austurbergi í kvöld en Selfyssingar eru komnir áfram í undanúrslit eftir sigur kvöldsins.

„Við byrjum þennan leik hrikalega illa og spilum í raun bara illa, allan fyrri hálfleikinn. Það hefði verið auðvelt að brotna eftir þennan fyrri hálfleik en við sýndum karakter í seinni hálfleik og sem betur fer tókst okkur að koma tilbaka. Það er styrkleikamerki að klára leikinn, miðað við það hvernig við spilum.“

Selfyssingar lentu í miklu basli með lið ÍR í einvígi liðanna en báðum leikjunum lauk með eins marks sigri Selfyssinga.

„ÍR-ingarnir voru þvílíkt flottir í kvöld, þeir gerðu okkur mjög erfitt fyrir og það verður að hrósa þeim fyrir þeirra frammistöðu í þessu einvígi. Við vissum alveg hvað þeir geta, ÍR er með flott lið og við vissum það fyrirfram. Við vorum klárir í hörkuseríu gegn þeim og það var ekkert í þeirra leik sem átti að koma okkur á óvart.“

Selfyssingar sluppu með skrekkinn á lokasekúndum leiksins þegar Kristján Orri Jóhannsson setti boltann í stöngina frá eigin vallarhelmingi eftir að Haukur hafði látið Stephen Nielsen verja frá sér í lokasókn Selfyssinga.

„Ég veit ekki alveg hvað ég var að spá undir restina. Þetta var heimskulegt hjá mér og ég viðurkenni það fúslega en sem betur fer fór lokaskotið í stöngina því ég sá sjálfur boltann vera á leiðinni í markið,“ sagði Haukur Þrastarson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert